Daníel er með lið Grindavíkur í 6. sæti Subway-deildarinnar eftir sautján umferðir af 22 en liðið steinlá gegn Njarðvík á föstudaginn, 102-76.
Það reyndist vera síðasti leikur liðsins undir stjórn Daníels sem tók við liðinu sumarið 2019 eftir að hafa áður verið aðstoðarþjálfari liðsins og einnig aðalþjálfari kvennaliðs Grindavíkur.
Jóhann Þór Ólafsson, forveri Daníels í starfi, mun stýra æfingum hjá Grindavík næstu daga þar til að ákveðið verður hver muni stýra liðinu út leiktíðina.
„Þetta var mjög erfið ákvörðun og síður en svo léttvæg þar sem við kunnum einstaklega vel við Daníel. Það var einhugur hjá stjórn að gera breytingu á þessum tímapunkti,“ segir Ingibergur Þór Jónasson, formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur, í fréttatilkynningu.
Undir stjórn Daníels komst Grindavík í bikarúrslit vorið 2020 en tapaði þar gegn Stjörnunni. Liðið endaði í 8. sæti Dominos-deildarinnar það ár, þegar úrslitakeppnin var blásin af vegna kórónuveirufaraldursins. Í fyrra hafnaði Grindavík í 6. sæti deildarinnar og féll úr leik í 8-liða úrslitum í úslitakeppninni.