Íslandsbanki birti í dag hagnað upp á 23,7 milljarða króna en áður hafði Landsbankinn greint frá 28,9 milljarða hagnaði og Arion banki hagnaðist um 28,6 milljarða.
Landsbankinn hefur greint frá því að hluthöfum verði greiddir rúmir 14 milljarðar í arð, en ríkið á um 95 prósent í bankanum.

Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra hefur kallað eftir því að bankarnir í landinu taki þátt í að koma samfélaginu út úr faraldrinum. Með „ofurhagnaði“ sínum séu þeir í góðri stöðu til að létta undir með heimilunum, sem sjá fram á verulegar vaxtahækkanir.
„Ég tel bara mjög mikilvægt að bankarnir taki þátt í því tímabili sem er framundan, þessu svokallaða „post-Covid“ tímabili. Það er mjög augljóst að þessar vaxtahækkanir koma mjög misvel við heimilin í landinu,“ sagði Lilja í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Hún segir þessa aðstoð sérstaklega mikilvæga fyrir ungt fólk og tekjulága, sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu vegna vaxtahækkana.
„Sum heimili skulda lítið og þá kemur þetta ekki eins illa við þau en svo er það unga fólkið sem er jafnvel nýfarið inn á markaðinn. Þá er þetta erfitt og ég tel að bankarnir eigi að koma að þessu og aðstoða þessi heimili og líka tekjulægstu heimilin,“ segir Lilja.
En hvernig leggur hún til að farið verði að þessu?
„Ég er svolítið að varpa boltanum yfir til þeirra en eins og við vitum er hluti af þeim í ríkiseigu og mér þætti hreinlega vænt um það ef þeir kæmu sjálfi með tillögu að þessu,“ segir Lilja og nefnir að stjórnvöld geti líka gripið inn í og nefnir til dæmis aðferðir Margaret Thatcher, fyrrum forsætisráðherra Bretlands.
„Árið 1981 setti hún á svona skatt til að koma til móts við akkúrat svipaðar aðstæður til að jafna stöðu fólksins í landinu,“ segir Lilja og segist stöðugt ræða efnahagsmálin við Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
„Við erum alltaf að ræða efnahagsmálin,“ segir Lilja.