Körfubolti

Sara Rún stigahæst í naumum sigri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sara Rún Hinriksdóttir og stöllur hennar í Phoenix Constanta unnu nauman sigur í dag.
Sara Rún Hinriksdóttir og stöllur hennar í Phoenix Constanta unnu nauman sigur í dag. Alex Nicodim/NurPhoto via Getty Images

Sara Rún Hinriksdóttir, landsliðskona í körfubolta, var stigahæsti leikmaður vallarins er Phoenix Constanta vann nauman útisigur gegn Targu Mures í rúmensku deildinni í körfubolta í dag. Lokatölur urðu 56-49, en Sara skoraði 16 stig.

Gestirnir í Phoenix sáu til þess að þær voru með örugga forystu eftir fyrsta leikhlutann með því að halda heimakonum í aðeins þremur stigum. Sara og stöllur skoruðu hins vegar 15 og fóru því með 12 stiga forskot inn í annan leikhlutann.

Sá var mun jafnari, en gestirnir héldu forskoti sínu þó út hálfleikinn. Þegar gengið var til búningserbergja var staðan 28-16, Phoenix í vil.

Heimakonur vöknuðu loksins til lífsins í upphafi síðari hálfleiks og söxuðu fljótt á forskot Phoenix. Þær náðu meira að segja tveggja stiga forskoti undir lok þriðja leikhluta, en gestirnir í Phoenix endurheimtu þó forystuna áður en komið var að lokaleikhlutanum.

Mikið jafnræði var í lokaleikhlutanum og liðin skiptust á að skora. Sara og stöllur hennar sigu svo fram úr á lokamínútunum og unnu að lokum sjö stiga sigur, 56-49.

Eins og áður segir skoraði Sara Rún 16 stig fyrir Phoenix, en ásamt því tók hún níu fráköst og gaf tvær stoðsendingar. Phoenix Constanta situr í fimmta sæti deildarinnar með 26 stig eftir 17 leiki, þremur stigum meira en Targu Mures sem situr sæti neðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×