Reuters greinir frá og hefur eftir háttsettum embættismanni í ríkisstjórn Joe Biden, Bandaríkjaforseta. Segir hann að Rússar undirbúi ýmsa leiki í stöðunni sem geti gefið þeim mögulega ástæðu til að ráðast inn í Úkraínu.
Þar á meðal er tilbúið myndband sem á að sýna eftirleik sprengingar þar sem sjá má búnað frá Úkraínu-mönnum eða Bandamönnum.
„Myndbandið verður birt til að sýna fram á að ógn við öryggi Rússlands og til að styðja við hernaðaraðgerðir,“ sagði embættismaðurinn við Reuters.
„Þetta myndband, ef það verður birt, gæti verið neistinn sem Pútín [Vladimír Pútín, Rússlandsforseti] þarf til að hefja og réttlæta hernaðaraðgerðir gegn Úkraínu,“ sagði hann enn fremur.
Sagði hann jafnframt að Bandaríkjastjórn væri að gera þessar upplýsingar opinberar með það að markmiði að letja Rússa til að útbúa átyllu fyrir árás.
Mikil spenna er í Austur-Evrópu um þessar mundir sem að má að miklu leyti rekja til gríðarlegs fjölda rússneskra hermanna við landamæri Úkraínu. Óttast er að Rússar gætu gert aðra innrás í landið.
Rússar hafa krafist þess að Atlantshafsbandalagið meini Úkraínu aðkomu að hernaðarbandalaginu í framtíðinni og vísi ríkjum Austur-Evrópu úr bandalaginu. Þeim kröfum hefur verið hafnað alfarið.