Elvis veitti innblástur
Það var ekki aftur snúið þegar hugmyndin að þættinum var komin á borðið. Þættirnir sóttu innblástur í Elvis Presley Special sjónvarpsútsendinguna frá 1968 sem var uppfull af orku, góðri tónlist, einlægni og stemningu. Hljómsveitin samanstendur að miklu leyti af hæfileikaríkum vinum Bjössa sem hann hefur verið að vinna mikið með í gegnum tíðina.

„Að sækja orku einhverstaðar í líkamanum fyrir tónleika eða sýningu er búið að vera hálfgert áhugamál hjá mér síðan ég man eftir mér,“
segir Bjössi sem á ekki erfitt með að detta í gírinn.
Gestir og djamm
Nýtt þema er í hverjum þætti en Bjössi ásamt Erni Eldjárn hljómsveitarstjóra velja þemun eftir alltof mikið kaffi, tónlist og trúnó. Þema fyrsta þáttarins er einfaldlega djamm.
„Það að velja réttu tónlistina til að koma sér í gírinn fyrir kvöldið er æðislegur staður að vera á,“
segir Bjössi sem er spenntur að deila gleðinni með áhorfendum í kvöld. Góðir gestir mæta í hverjum þætti og koma með sína einstöku orku og tengingu við þema hvers þáttar.

Á Glaumbæ í öðru lífi
Sjálfur hefur Bjössi löngu sagt skilið við áfengi og hefur djammið því aðra merkingu fyrir honum í dag en áður. Þrátt fyrir það líður honum eins og hann hafi hreinlega verið á Glaumbæ í öðru lífi, „beinstífur við barinn með tvöfaldan brennivín í kók,“ eins og hann orðaði það.

Bjössi bíður spenntur eftir því að Níu Líf komist aftur á svið í Borgarleikhúsinu en í millitíðinni er nóg um að vera í Glaumbæ, þar sem allir eru velkomnir.