Orri Steinn Óskarsson hefur raðað inn mörkum með unglingaliðum FCK síðustu ár en núna er hann farinn að skora í hverjum leik með stóru strákunum.
Orri Steinn skoraði annan leikinn í röð þegar FCK vann 3-2 sigur á Helsingör í æfingarleik í vikunni en hann hafði líka skorað mark í leik á móti Hvidovre.
Markið hans Orra var alíslenskt því stoðsendinguna átti nefnilega Hákon Arnar Haraldsson eins og sjá má hér fyrir ofan.
Hákon Arnar gerði mjög vel í að keyra inn á völlinn og stinga honum síðan inn á Orra sem skoraði af stuttu færi.
Orri vildi reyndar fá annað mark seinna í leiknum en það var dæmt af vegna rangstöðu. Rangur dómur að mati sumra.
Orri Steinn er fæddur í ágúst 2004 og er því enn bara sautján ára gamall. Hákon Arnar er einu ári eldri en hann er fæddur í apríl 2003.
Orri Steinn skoraði 14 mörk í 11 leikjum með nítján ára liði FCK á fyrri hluta tímabilsins en tímabilið á undan var hann með 10 mörk í 12 leikjum.