Einar Hermannsson sagði í gær af sér sem formaður SÁÁ eftir að Stundin greindi frá því að hann hefði svarað auglýsingu á netinu þar sem í boði var kynlíf gegn greiðslu. Í dag birti Stundin skjáskot af samskiptum Einars við konuna þar sem sést að hann keypti vændi af henni en konan er sjálf meðal skjólstæðinga samtakanna.
Anna Hildur Guðmundsdóttir, talsmaður framkvæmdastjórnar SÁÁ segir að stjórnin hafi fengið vitneskju um málið á föstudaginn.
„Seinnipartinn á föstudaginn. Þá var ákveðið að hittast á fundi í hádeginu á mánudaginn sem var í gær og þá var þetta borið upp við Einar og við fengum þetta staðfest, Þá tilkynnti hann um uppsögn sína.“
Í umfjöllun stundarinnar kemur fram að minnsta kosti einn stjórnarmaður í framkvæmdastjórn SÁÁ hafi árið 2020 vitað af því að Einar hefði keypt vændi af veikum fíkniefnaneytanda. Anna Hildur segist ekki hafa fengið upplýsingar um að sá sé í starfandi stjórn.
„Það hefur ekki borist til mín. Ég hef ekki fregnir af því að þetta hafi borist inn í þessa stjórn.“
Kemur til greina að stjórnarmenn segi af sér vegna málsins?
„Við erum ekki komin þangað og ég hef ekki neitt meira um málið að segja að svo stöddu. Við þurfum að fá að hittast og ræða saman. Þetta gerðist bara í gær og við þurfum tækifæri til þess að setjast niður og funda um þetta.“
„Starfsemi samtakanna helst óbreytt.“
Í umfjöllun Stundarinnar segir að Embætti landlæknis hafi verið upplýst um málið árið 2020. Fréttastofa sendi upplýsingafulltrúa Landlæknis skriflega fyrirspurn vegna málsins rétt fyrir hádegisfréttir. Greint verður frá svörum á Vísi þegar þau berast.