Innherji

Rapyd tvöfaldaði hlutdeildina á tæpum tveimur árum

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Rapyd hefur náð samkomulagi um umfangsmikla sölu á viðskiptasamningum til að liðka fyrir kaupunum á Valitor. 
Rapyd hefur náð samkomulagi um umfangsmikla sölu á viðskiptasamningum til að liðka fyrir kaupunum á Valitor.  sefa ozel/Getty Images

Færsluhirðirinn Rapyd hefur tvöfaldað markaðshlutdeild sína hér landi frá því að fyrirtækið kom inn á markaðinn með kaupum á KORTA fyrir tæpum tveimur árum síðan. Á sama tíma hefur markaðshlutdeild Saltpay, sem áður hét Borgun, dregist verulega saman.

Þetta er niðurstöður rannsóknar Samkeppniseftirlitsins á kaupum Rapyd á Valitor, dótturfélagi Arion banka. Samkvæmt frummati samkeppniseftirlitsins mun samruninn leiða til afgerandi markaðsráðandi stöðu sameinaðs félags á heildarmarkaði fyrir færsluhirðingar hjá íslenskum söluaðilum og raska samkeppni með umtalsverðum hætti.

„Samruninn yki því verulega hættu á því að verð fyrir færsluhirðingu hækkaði vegna minni beinnar samkeppni,“ segir í tilkynningu á vef eftirlitsstofnunarinnar. Renna umsagnir markaðsaðila sem Samkeppniseftirlitið aflaði snemma á rannsóknartímabilinu stoðum undir þetta frummat.

Fækkun öflugra keppinauta á markaðnum getur, að mati Samkeppniseftirlitsins, aukið hættu á að þeir keppinautar í færsluhirðingu sem eftir standa á markaðnum öðlist færi á samhæfa hegðun sína þannig að svonefnd þögul samhæfing komist á með tilheyrandi tjóni fyrir atvinnulíf og neytendur. Þá gæti fækkun öflugra keppinauta jafnframt orðið til þess að draga úr gæðum þjónustu og nýsköpun á markaðinum.

Þessar niðurstöður taka hins vegar ekki með í reikninginn þær mótvægisaðgerðir sem Rapyd og Valitor hafa lagt til. Samkeppniseftirlitið hefur nú til skoðunar hvort tillögurnar dugi til að eyða skaðlegum áhrifum samrunans á samkeppni.

Samkvæmt tillögunum skuldbindur Rapyd sig til þess að selja nægilegt magn viðskiptasamninga til sterks kaupanda þannig að kaupandinn hefji samkeppni á markaðinum með sambærilega markaðshlutdeild og Rapyd hafði fyrir samrunann.

„Væntur kaupandi er leiðandi afl á íslenskum fjártæknimarkaði og munu kaupin efla stöðu hans enn frekar,“ segir í tillögum Rapyd sem náði samkomulagi við Arion banka um kaup á Valitor í byrjun júlí 2021. Kaupverðið er um 100 milljónir Bandaríkjadala. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×