Körfubolti

Sterkur sigur Lakers og Phoenix styrkti stöðuna á toppnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
LeBron James hefur spilað gríðarlega vel undanfarnar vikur.
LeBron James hefur spilað gríðarlega vel undanfarnar vikur. ap/Ringo H.W. Chiu

Eftir þrjú töp í röð vann Los Angeles Lakers góðan sigur á Utah Jazz, 101-95, í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

LeBron James fór fyrir Lakers-liðinu eins og oft áður og var með 25 stig, sjö fráköst og sjö stoðsendingar. Russell Westbrook og Stanley Johnson skoruðu fimmtán stig hvor.

Mike Conley skoraði tuttugu stig fyrir Utah sem hitti aðeins úr 36,9 prósent skota sinna í leiknum.

Phoenix Suns styrkti stöðu sína í toppsæti Vesturdeildarinnar með öruggum sigri á San Antonio Spurs, 107-121. Devin Booker fór hamförum og skoraði 48 stig í fjórða sigri Phoenix í röð. Bismack Biyombo sá til þess að Phoenix saknaði ekki DeAndres Ayton og skilaði sautján stigum og fjórtán fráköstum. Chris Paul skoraði svo fimmtán stig og gaf tólf stoðsendingar.

Meistarar Milwaukee Bucks töpuðu öðrum leiknum í röð þegar þeir sóttu Atlanta Hawks heim. Haukarnir unnu sjö stiga sigur, 121-114.

Trae Young skoraði þrjátíu stig fyrir Atlanta og gaf ellefu stoðsendingar. Khris Middleton skoraði 34 stig fyrir Milwaukee og Giannis Antetokounmpo 27.

Úrslitin í nótt

  • LA Lakers 101-95 Utah
  • San Antonio 107-121 Phoenix
  • Atlanta 121-114 Milwaukee
  • Orlando 88-98 Portland
  • Miami 104-99 Toronto
  • Dallas 104-102 Oklahoma

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×