Innlent

Sótti brotaþola í nuddið: „Ég var ekki til staðar fyrir hana“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jóhannes Tryggvi Sveinbjörnsson við nuddbekkinn. Fram kom í máli matsmanna fyrir dómi að Jóhannes hefði ekki haldið neinar skýrslur um meðferð sína á sjúklingum. Þá væru gögn um menntun hans takmörkuð.
Jóhannes Tryggvi Sveinbjörnsson við nuddbekkinn. Fram kom í máli matsmanna fyrir dómi að Jóhannes hefði ekki haldið neinar skýrslur um meðferð sína á sjúklingum. Þá væru gögn um menntun hans takmörkuð.

Vinkona ungrar konu sem segir Jóhannes Tryggva Sveinbjörnsson hafa brotið á sér í meðferðartíma á stofu hans segist hafa brugðist vinkonu sinni. Hún sótti hana í tímann en segist ekki hafa vitað hvernig ætti að bregðast við. Eftir á að hyggja hefði átt að tilkynna málið til lögreglu.

Aðalmeðferð í máli héraðssaksóknara gegn Jóhannesi Tryggva lauk með málflutningi lögmanna á föstudaginn. Fjölmörg vitni komu fyrir dóminn og gáfu skýrslu. Jóhannes hefur verið sakfelldur fyrir fjórar nauðganir, fékk sex ára dóm í Landsrétti, og er þetta því fimmta málið gegn honum. Jóhannes neitar sök í málinu.

Jóhannes er ákærður fyrir nauðgun, í starfi sínu sem nuddari dagana 3. og 5. janúar 2012, á meðferðarstofu sinni í Reykjavík, með því að hafa haft önnur kynferðismök en samræði við brotaþola, án hennar samþykkis með því að káfa á kynfærum hennar, rassi og brjóstum og setja fingur inn í leggöng hennar, henni að óvörum, þar sem hún lá léttklædd á nuddbekk. 

Þá segir í ákæru að hann hafi hann beitt brotaþola ólögmætri nauðung með því að misnota það traust sem hún bar til hans.

Tvítugar í ársbyrjun 2012

Ragnhildur Eik Árnadóttir, brotaþoli í málinu, hefur rætt málið í viðtölum í fjölmiðlum. Fyrir dómi sagðist hún hafa leitað til Jóhannesar eftir ráðleggingum móður sinnar eftir að hafa lent í árekstri árið 2010 og slasast. 

Hún hefði áður verið hjá sjúkraþjálfara í um eitt ár vegna eymsla í baki, en sú meðferð hefði ekki borið árangur. Jóhannes hefði reynst móður hennar vel og því hafi hún ákveðið að leita til hans.

Nánar má lesa um vitnisburð Ragnhildar fyrir dómi hér.

Vinkona Ragnhildar og jafnaldri var ein þeirra sem bar vitni fyrir dómi á föstudaginn. Þær æfðu saman íþróttir og voru saman í menntaskóla. Þær voru tvítugar þegar meint brot átti sér stað.

„Ég sótti hana eftir nuddið og við fórum í smábíltúr. Hún sagði mér frá þessu,“ sagði vinkonan sem bar vitni í gegnum fjarfundabúnað en hún er búsett erlendis. Hún sagði Ragnhildi hafa lýst því þannig að Jóhannes hefði nuddað kynfæri hennar. 

Þá hefði hann haft á orði, hafði vinkonan eftir Ragnhildi, að nuddið myndi hjálpa henni að njóta kynlífs í framtíðinni og fá fullnægingar.

Vissu ekki hvernig þær áttu að haga sér

Vinkonan áréttaði að nú væru liðin tíu ár frá atburðum og þetta hefði verið vel fyrir breytingu í samfélaginu sem hafi orðið í kringum #metoo byltinguna.

„Maður fattaði ekki hvað þetta var rangt á þessum tíma,“ sagði vinkonan. „En þegar maður hugsar um þetta núna þá hefði hún átt að tilkynna þetta, og ég hefði átt að vera betri vinkona.“

Hún sagði þær hafa brugðist rosalega kjánalega við.

„Maður var eitthvað svo vitlaus á þessum tíma,“ sagði vinkonan. Aðspurð um stemmninguna í bílnum þá hefði hún verið óþægileg.

„Við hlógum hvað þetta var kjánalegt og óþægilegt,“ sagði vinkonan en áréttaði það hafi ekki verið af því þeim hefði fundist þetta svo fyndið.

„Ég veit ekki hvernig maður á að díla við hluti þegar maður veit ekki hvernig maður á að haga sér.“

Mundi eftir SMS-skilaboðum

Hún rifjaði upp að Jóhannes hefði sent Ragnhildi SMS-skilaboð eftir tímann og spurt hvort hann hefði nokkuð verið of grófur. Þá hefði hún ekkert spurt Ragnhildi frekar út í málið.

„Ég talaði ekkert rosalega um þetta við hana.“

Aðspurð um líðan Ragnhildar í framhaldinu sagði vinkonan að það hefðu alveg komið lægðir hjá henni. Hún vissi þó ekki hvort það væri vegna þessa máls eða ekki.

„Ég var ekki til staðar fyrir hana,“ sagði vinkonan. Önnur vitni, þeirra á meðal sálfræðingur sem Ragnheiður leitaði til árið 2018 þegar hún hafði lent á vegg, sagði púslin hafa byrjað að raðast saman þegar Ragnheiður opnaði sig um málið frá 2012. Þá nefndi sálfræðingurinn að Ragnhildur hefði leitað til hennar í júlí 2018 eða þremur mánuðum áður en fjallað var um málið í fyrsta sinn í fjölmiðlum.

Steinbergur Finnbogason, verjandi Jóhannesar Tryggva, spurði vinkonuna hvort hún hefði fylgst með fréttaflutningi af málinu. Vinkonan sagði Ragnhildi hafa sent sér link á frétt þegar málið hefði fyrst komist í kastljós fjölmiðla. Annars hefði hún lítið fylgst með enda búsett erlendis. Hún játti því að hafa vitað af viðtali Stundarinnar við Ragnhildi Eik.

Þá vildi Steinbergur fá nánari skýringar á því af hverju vinkonurnar hefðu farið að hlæja í bílnum eftir tímann.

„Þetta voru óþægilegar samræður. Við hlógum þótt hún talaði um hvað þetta væri óþægilegt. Þetta var allt mjög kjánalegt.“

Sækjandi spurði vinkonuna svo út í Facebook-samskipti hennar við Ragnhildi Eik eftir seinni tímann þann 5. janúar. Þá hafi Ragnhildur sagst hafa farið aftur til Jóhannesar. Hún hafi spurt: Hvað gerðist?

Tveimur dögum síðar hafi svarið borist frá Ragnhildi.

„The guy is attracted to my crotch“ sem mætti þýða á íslensku: „Gaurinn er sjúkur í klofið á mér.“

Dagmar Ösp Vésteinsdóttir taldi sig ekki þurfa að spyrja vinkonuna frekar eftir svarið við þessari spurningu. 

Jóhannes neitar alfarið að hafa snert brjóst eða kynfæri Ragnhildar með óviðeigandi hætti. Hann vildi þó ekki tjá sig um það fyrir dómi á fimmtudag, hvar hann bar vitni í gegnum fjarfundabúnað, og vísaði í vitnisburð sinn hjá lögreglu.

Reikna má með dómi í málinu upp úr mánaðamótum.


Tengdar fréttir

Lýsti upp­lifun sinni af nudd­tímunum í sögu­legu þing­haldi

Fjöldi vitna var kallaður til við aðalmeðferð í sakamáli á hendur meðhöndlaranum Jóhannesi Tryggva Sveinbjörnssyni í dag og í gær. Jóhannes hefur verið sakfelldur fyrir fjórar nauðganir en aðalmeðferð í fimmta málinu á hendur honum hófst í Héraðsdómi Reykjaness í gær. Jóhannes neitaði sök fyrir dómi en vildi annars lítið tjá sig og vísaði til lögregluskýrslu sem tekin var af honum vegna málsins. Þinghald í málinu var opið, sem er óvenjulegt fyrir kynferðisbrotamál.

Neitar að hafa snert brjóst eða kynfæri á óviðeigandi hátt

Jóhannes Tryggvi Sveinbjörnsson segist hvorki hafa komið á óviðeigandi hátt við brjóst eða kynfæri ungrar konu sem sætti meðferð hjá honum á meðferðarstofu hans árið 2012. Hann vildi lítið tjá sig fyrir dómi í morgun um ásakanir sem bornar eru á hann, umfram það sem hann hefur áður tjáð sig í skýrslutöku hjá lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×