Innlent

Einstaka „Íslandshjólið“ komið í leitirnar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Lögreglan skilaði hjólinu til Burkard í morgun.
Lögreglan skilaði hjólinu til Burkard í morgun. skjáskot/Ryan Hill

Hjól ofurhugans og ljósmyndarans Chris Burkard er komið í leitirnar eftir að því var stolið úr íbúð hans í Reykjavík í gær. Lögreglan skilaði hjólinu til Burkard í morgun við mikinn fögnuð ljósmyndarans. 

Hjólið er einstakt og var sérstaklega hannað fyrir Burkard fyrir ferðalög um Ísland. Hjólið notaði hann til að hjóla þvert yfir landið á sex dögum síðasta vetur. Tvö hjól af þessu tagi eru til og eru þau bæði í eigu Burkard.

Hjólinu var stolið úr íbúð Burkards í gær. Gluggi hafði verið spenntur upp á íbúð hans og það eina sem innbrotsþjófurinn tók var hjólið. 

Burkard tilkynnti fundinn á Instagram í morgunn. Hann sagðist í áfalli yfir stuðningnum sem hann hafi fundið fyrir frá því að hjólinu hans var stolið.Skjáskot

Burkard tilkynnti fundinn á hjólinu á Instagram-síðu sinni fyrr í dag en stuldurinn vakti mikla athygli í gær. Miðað við Instagram-færslu Burkards voru það lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og hjólahvíslarinn Bjartmar Leósson sem fundu hjólið. 

Burkard er mikill Íslandsvinur. Hann hefur komið reglulega til landsins í um fimmtán ár, hann keppti í WOW Cyclothon haustið 2020 og kom þá fyrstur í mark og sló einstaklingsmet keppninnar. Daginn eftir hljóp hann Laugaveginn. 

Þá hjólaði hann eins og fyrr segir þvert yfir landið, frá norðri til suðurs, að vetri til og er hann sá eini sem hefur gert það auk þeirra tveggja sem voru í för með honum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×