Sænskir fjölmiðlar hafa eftir upplýsingafulltrúa forsætisráðherrans að Andersson hafi greinst með veiruna í hraðprófi. „Hún fylgir sóttvarnareglum og hyggst sinna vinnu sinni að heiman.“
Þá segir að Andersson líði eftir atvikum vel.
Nokkur fjöldi sænskra þingmanna hefur greinst með Covid-19 síðustu daga, þeirra á meðal tveir flokksformanna á þingi – Annie Lööf, formaður Miðflokksins, og Per Bolund, annar talsmanna Græningja.
Þau Lööf, Bolund og Andersson tóku öll þátt í umræðum flokksformanna á sænska þinginu á miðvikudag, auk þess að sitja saman fund síðar sama dag.