Kristín endaði í þriðja sæti í kjörinu á Íþróttamanni ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna en hún er elsta konan í sögunni sem kemst í hóp þriggja efstu.
Kristín keppir fyrir ÍA og var kosin Íþróttamaður Akraness 2021 auk þess að vera Kraftlyftingakona ársins.
Nú síðast var Kristín kjörin Íþróttamaður Borgarfjarðar 2021 en hún býr þar þótt hún keppi fyrir ÍA.

Kristín vekur athygli á þessum verðlaunum á Instagram síðu sinni með skemmtilegri staðreynd.
Kristín, sem er nú 37 ára gömul, var nefnilega ekki að vinna þau verðlaun í fyrsta sinn. Hún vann þau líka árið 1999 þegar hún var bara fimmtán ára gömul.
Á þeim tíma var Kristín að gera góða hluti í frjálsum íþróttum en hún tók síðan upp á því að fara að keppa í kraftlyftingum á eldri árum með frábærum árum.
Í millitíðinni hefur hún menntað sig sem dýralæknir og eignast börn.
Það var full ástæða til að verðlauna Kristínu fyrir afrek sín í fyrra. Hún setti Evrópumet og varð Evrópumeistari í -84 kílóa flokki í klassískum kraftlyftingum þar sem Kristín lyfti 560 kílóum samanlagt, sem er nýtt Evrópumet.
Í réttstöðulyftunni lyfti hún 225 kílóum, náði 220 kílóum í hnébeygjunni, sem er Evrópumet, og lyfti svo 115 kílóum í bekkpressu, sem jafnframt er bæting á Íslandsmeti hennar í bekkpressu.
Samtals lyfti Kristín 560 kílóum sem er nýtt Evrópumet. Hún varð fyrsti Íslendingurinn til að fagna Evrópumeistaratitli í samanlögðu. Áður hafði Kristín unnið brons á Heimsmeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum í október.