Kjarninn greindi frá því í morgun að Arion banki og PCC SE, meirihlutaeigandi kísilversins á Bakka á Húsavík, hefðu undirritað viljayfirlýsingu varðandi möguleg kaup á kísilverinu í Helguvík. Kísilverinu var lokað árið 2017 eftir að Umhverfisstofnun stöðvaði starfsemina vegna ítrekaðra bilana og kvartana íbúa í nágrenninu. Síðan þá hefur verið stefnt að því að selja kísilverið.
Enginn samstarfsvilji
Guðbrandur Einarsson forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar segir bæjarstjórn ekki vita hvað stendur í viljayfirlýsingunni en ef stefnt sé á endurræsingu myndi hún mæta verulegri andstöðu.
„Íbúar eru foxillir yfir því að þetta sé að gerast, ég þori að fullyrða það,“ segir Guðbrandur. Hann trúi ekki öðru en að PCC á Bakka kynni sér stöðuna í Reykjanesbæ áður en lengra er haldið.
„Þá er enginn samstarfsvilji hér á Suðurnesjum um það að þessi verksmiðja fari í gang aftur. Við sem samfélag munum berjast gegn því að verksmiðjan verði endurræst.“
„Íbúar urðu bara veikir“
Hann rifjar upp ástandið í bænum þegar kísilverið var starfandi.
„Menn hafa verið að tala alltaf um ólykt en íbúar urðu bara veikir, margir þurftu að leita læknisaðstoðar. Einhverjir þurftu að fara inn á Landspítala, margir misstu röddina,“ segir Guðbrandur.
„Það bara gengur ekki upp að menn geti viðhaft svona vinnubrögð gagnvart stóru samfélagi og við eigum bara að bíða og sjá hvort þessir hlutir heppnist.“
Fréttastofa hefur sent Rúnari Sigurpálssyni forstjóra PCC á Bakka fyrirspurn um mögulegar fyrirætlanir fyrirtækisins í Helguvík. Guðbrandur bendir á að kísilverið sé óstarfhæft í núverandi mynd. Til að endurræsa það þyrfti að fara í milljarðaframkvæmdir og deiliskipulagsbreytingar.