Innlent

Fullbólusettur einstaklingur með ómíkron á gjörgæslu

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Frá Landspítalanum.
Frá Landspítalanum. Vísir/Einar

Fullbólusettur einstaklingur sem greindist smitaður af ómíkron afbrigði kórónuveirunnar er meðal þeirra sjö einstaklinga sem liggja nú á gjörgæslu með Covid-19 samkvæmt upplýsingum frá Landspítala.

Eins og staðan er í dag eru 32 inniliggjandi á Landspítala með Covid-19, 28 eru með virkt smit í einangrun á meðan fjórir eru lausir úr einangrun en teljast ekki útskriftarhæfir. Sautján eru bólusettir en fimmtán óbólusettir. Sjö eru á gjörgæslu, þar af sex í öndunarvél. Fimm af sjö á gjörgæslu eru óbólusettir. 

Níu sjúklingar eru með ómíkron afbrigði veirunnar og sautján eru með delta en upplýsingar um veiruafbrigði vantar hjá sex sjúklingum. Að minnsta kosti einn sjúklingur sem nú er á gjörgæslu er með ómíkron. 

8.726 sjúklingar eru nú í Covid-göngudeild spítalans, og þar af 2.050 börn.  Þrír eru flokkaðir sem „rauðir“ þar sem innlögn þykir líkleg og svo eru 183 flokkaðir sem „gulir“ þar sem innlögn þykir möguleg. Aðrir eru einkennalitlir, einkennalausir eða bíða mats.

Alls greindust 1063 smitaðir af veirunni í gær en um það bil 90 prósent þeirra sem eru að greinast þessa dagana eru með ómíkron afbrigði veirunnar. Áfram er þó stöðugur fjöldi að greinast með delta afbrigðið og virðast þeir vera að veikjast frekar.

Enn er of snemmt að segja til um hversu stór hluti þeirra sem greinast með ómíkron afbrigðið þurfi á spítalainnlögn að halda en út frá upplýsingum erlendis frá er spáð að um 0,7 prósent þeirra sem greinast þurfi að leggjast inn.  

Samkvæmt nýjasta spálíkani Landspítala má gera ráð fyrir að innlögnum á gjörgæslu fjölgi á næstu dögum en vonir eru bundnar við að bjartsýnasta spáin gangi eftir. Þannig yrðu níu á gjörgæslu þann 13. janúar en svartsýnustu spár gera ráð fyrir að 23 verða inniliggjandi. 

Fréttin hefur verið uppfærð. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×