Í frétt Canarian Weekly segir viðmiðin sem yfirvöld notast við ákvarðanatöku varðandi viðbúnaðarstig snúi meðal annars að innlögnum á sjúkrahús og gjörgæslu.
Miðað við þau viðmið er talið að yfirvöld á Tenerife hækki viðbúnaðarstigið á næstu dögum. Mikill fjöldi Íslendinga eru á Tenerife þessa dagana.
Í héraðsmiðlinum Diario de Avisos segir að þriðja stigs viðbúnaður sé einnig á Gran Canaria og Fuerteventura. Aðrar eyjur Kanaríeyja eru á öðru stigi.
Færri komast að
Á fjórða stigi mega færri sitja saman bæði inni á veitingastöðum og krám en einnig úti. Á útisvæðum má hleypa að þriðjungi leyfilegs hámarksfjölda, í stað helmings á þriðja stigi, en hafa að hámarki sex við hvert borð, eins og á þriðja stigi.
Innandyra fer hámarksfjöldinn úr þriðjungi leyfilegs hámarksfjölda í fjórðung. Enn mega sex sitja við hvert borð.
Heilsulindum, sánum og slíku verður lokað og sundlaugargestum fækkað í þriðjung hámarksfjölda. Reglurnar varðandi baðstrendur taka ekki breytingum á milli stiga og verður enn miðað við helming hámarksfjölda og að hámarki fjóra í hverjum hóp.
Þá verður miðað við þriðjung hámarksnotenda í almenningssamgöngum og er þar grímuskylda.
Dans er áfram bannaður og hótel mega hafa um 75 prósent hámarksfjölda utandyra en einungis 25 prósent innandyra.
Áhugasamir geta kynnt sér reglur mismunandi stiga á Tenerife hér.