Í dag var 431 starfsmaður í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi borgarinnar fjarverandi vegna sóttkvíar eða einangrunar en þetta er 7,3 prósent starfsfólksins.
Þá er viðbúið að mörg börn verði fjarverandi þegar kennsla hefst á morgun. 1.657 börn eru nú með veiruna og liggja tvö börn inni á barnadeild Landspítalans. Þá greindust 795 með veiruna innanlands í dag en rúmur helmingur var utan sóttkvíar og því ljóst að veiran er víða í samfélaginu.
Magnús Þór Jónsson, verðandi formaður Kennarasambands Íslands og núverandi formaður Félags skólastjórnenda í Reykjavík, segir ljóst að ástandið komi með mjög mismunandi hætti við mismunandi skóla.
„Af því sem ég sá, alveg frá núll prósentum upp í 40 prósent hjá ákveðnum skólum. Það er auðvitað eitthvað sem við þurfum að horfa til,“ sagði Magnús í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Ljóst væri að útfærsla skólahalds í skólum þar sem lítill sem engra áhrifa gætir á starfsliðið verði frábrugðin þeirri þar sem áhrifin eru meiri.
Hann segir skóla þá mislangt á veg komna hvað varðar undirbúning á fjarkennslu og öðrum úrræðum sem grípa gæti þurft til ef mönnun leyfir ekki fullt skólahald.
„Bara út frá tækjabúnaði og öðrum aðstæðum. Í dag var verið að undirbúa og þar hefur undirbúningurinn náttúrulega tekið mið af því hverjir voru í húsinu. Þar sem vantar marga kennara þá hefur kannski verið erfitt að undirbúa, því auðvitað eru kennarar líka lasnir af Covid og í einangrun,“ segir Magnús.
„Þannig að þetta er mjög ólíkt, og ég held að það séu bara skilaboðin inn í samfélagið. Að þetta verður ólíkt og við verðum bara öll að anda ofan í maga og horfa til þess hvað hver skóli ræður við að gera.“