Fótbolti

West Ham í fimmta sætið eftir óþarflega nauman sigur

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
David Moyes knattspyrnustjóri West Ham
David Moyes knattspyrnustjóri West Ham EPA-EFE/FACUNDO ARRIZABAGALA

West Ham United komst upp í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar þegar að liðið vann 2-3 sigur á Crystal Palace í síðasta leik dagsins.

Sigurinn var óþarflega tæpur hjá Hömrunum sem komust í 0-3 í fyrri hálfleik. Fyrst skoraði Michail Antonio a 22. mínútu eftir skemmtilega fyrirgjöf frá Said Benrahma. Antonio dýfði sér fram fyrir varnarmennina og náði mikilvægri snertingu á boltann sem fór í netið.

Manuel Lanzini skoraði næstu tvö mörk. Það fyrra á 25. mínútu var einkar glæsilegt. Lanzini tók þá á móti sendingu frá Declan Rice, lék á varnarmann og hamraði boltann með vinstri fæti í slána og inn. Síðara markið sitt skoraði hann úr vítaspyrnu í uppbótartíma fyrri hálfleiks eftir að Luka Milivojevic handlék knöttinn klaufalega innan teigs.

Síðari hálfleikurinn var svo frekar einkennilegur. Crystal Palace sótti en voru ekki sérlega beittir fyrr en alltof seint. Palace minnkaði muninn á 83. mínútu með marki frá Odsonne Edouard og svo á 91. mínútu skoraði Michael Olise beint úr aukaspyrnu. Flott tilraun hjá Crystal Palace en aðeins of seint og West Ham fagnaði sigri sem var óþarflega tæpur.

West Ham eru sem fyrr segir komnir upp í fimmta sæti deildarinnar með 34 stig en Crystal Palace situr í því ellefta með 23 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×