Umræðan

Sóttvarnir sem drepa niður samfélag

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar

Þegar árið 2021 rennur sitt skeið á enda verða liðin næstum því tvö ár frá því að fyrsta kóvid-smitið greindist á Íslandi. Á þessum tíma hefur samfélagið fært ómældar fórnir, bæði efnislegar og óefnislegar, í þágu sóttvarna. Hversu mikið hefur áunnist?

Þrátt fyrir aukið fjármagn og nægan tíma til undirbúnings hefur Landspítalinn ekki burði til að bregðast við minnstu sveiflum í innlögnum. Þrátt fyrir að þjóðin sé bólusett verða takmarkanir yfir jólin með svipuðu móti og þær voru síðustu jól. Þrjú þúsund manns, langflestir við hestaheilsu, sitja í sóttkví og fara þannig á mis við samverustundir með fjölskyldunni yfir hátíðirnar. Við erum föst í sömu hjólförunum.

Margoft hefur verið bent á að greina þurfi sóttvarnaaðgerðir með víðtækum hætti. Við þurfum að taka með í reikninginn að ferðaþjónustan, sem hefur blásið meira lífi í byggðir og menningu landsins en nokkurn stjórnmálamann gæti órað fyrir, er svo löskuð og skuldsett að hún nær sér vart á strik. Heil kynslóð ungmenna hefur farið á mis við iðandi skólalíf og félagslegu mótunina sem því fylgir. Svo mætti lengi áfram telja.

En ríkisstjórnin hefur ekki meira hyggjuvit en svo að tillögur frá embættismanni sem horfir á vandann frá þröngu sjónarhorni eru samþykktar möglunarlaust. Með því að herða aðgerðir yfir jólin sýnir ríkisstjórnin í verki að engin önnur sjónarmið komast að. Smittölurnar ráða för eftir sem áður. Það er hins vegar ekki forsvaranlegt að bregðast við með þessum hætti eftir þjóðarátak í bólusetningu og í ljósi þess að Omicron-afbrigðið er mun vægara en afbrigðin sem á undan komu.

Það er ekki mikil reisn yfir samfélagi manna þegar því er stjórnað með þessum hætti.

Sóttvarnir hafa sogað til sín fjármagn frá skattgreiðendum og athygli frá ráðamönnum en á meðan sitja mun brýnni og mikilvægari mál á hakanum. Tökum stöðu íslenskrar tungu sem dæmi. Ef einhver er í vafa um að tungumálið sé í mikilli hnignun skal viðkomandi að eiga orðaskipti við barn á grunnskóla- eða menntaskólaaldri og athuga hvort það geti tjáð hugsanir sínar án þess að sletta í annarri hverri setningu. Aðrir gætu nefnt loftslagsmál eða þá staðreynd að Ísland sker sig úr hópi OECD-ríkja þegar kemur að notkun þunglyndislyfja.

Það er ekki mikil reisn yfir samfélagi manna þegar því er stjórnað með þessum hætti. Það er ekki mikil reisn yfir því að sundra fjölskyldum á heilagri hátíð, nú eða því þegar lögreglan hefur afskipti af fólki niðri í bæ vegna þess að það er að dansa. Og það er sannarlega ekki mikil reisn yfir því þegar fólk þarf að beygja sig undir vilja sóttvarnayfirvalda til að endurheimta mannréttindi sem áður þóttu sjálfsögð.

Við verðum líklega í sömu stöðu næstu jól. Ákvarðanir um sóttvarnir eru teknar af fólki sem þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af næsta launaseðli og hefur fengið að njóta æskunnar til fulls. Það er kannski rót vandans.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.




Umræðan

Sjá meira


×