Skoðun

Hagur húsfélaga að framlengja átakið Allir vinna

Daníel Árnason skrifar

Sú staða blasir nú við mörgum húsfélögum sem farið hafa af stað í góðri trú með umfangsmiklar viðhaldsframkvæmdir í tengslum við átakið ALLIR VINNA að ekki næst að ljúka þeim fyrir áramót vegna tafa af völdum COVID-19. Algengast er að um sé að ræða tafir á vinnuþættinum hjá verktökum vegna fjarvista erlends starfsfólks, s.s. vegna smit- og sóttvarna. Áhrifa COVID-19 gætir einnig í vaxandi mæli á ýmis aðföng vegna viðhalds- og byggingarframkvæmda, s.s. á framleiðslu erlendis og flutninga.

Fjölmörg dæmi eru um það hjá húsfélögum sem eru í þjónustu hjá okkur að framkvæmdum, sem átti að ljúka í haust, hafi verið slegið á frest til vors 2022 af þessum orsökum. Aðdragandi framkvæmda hjá húsfélögum er umtalsverður, bæði öflun tilboða og samþykktarferlið. Eðlilega verðum við því vör við gremju hjá stjórnum húsfélaga sem eru lent í þessari stöðu, enda allt útlit er fyrir að fjárhags- og framkvæmdaáætlanir raskist með tilheyrandi viðbótarkostnaði fyrir eigendur, fari svo að ALLIR VINNA ljúki nú um áramótin.

Efnt var til átaksins sem hluta af aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við áhrifum COVID-19 á efnahagslífið. Kórónuveirufaraldurinn er langt frá því að vera yfirstaðinn og því er full þörf á að framlengja átakið að okkar mati. Átakið hófst í mars 2020 og það hefur haft mikil og jákvæð áhrif fyrir eigendur íbúðarhúsnæðis í fjöleignarhúsum. Húsfélög í mörgum eldri fjöleignarhúsum hafa ráðist í tímabært viðhald og endurbætur, beinlínis vegna minni kostnaðar sem fylgir 100% endurgreiðslu á virðisaukaskatti.

Við hjá Eignaumsjón, sem höfum verið leiðandi hérlendis í yfir 20 ár í þjónustu við húsfélög fjöleignarhúsa, tökum því heilshugar undir áskoranir til stjórnvalda og Alþingis um að átakið ALLIR VINNA verði framlengt enn um sinn. Jafnframt höfum við komið þessum sjónarmiðum okkar á framfæri við félagsmálaráðuneytið, sem fer með málefni fjöleignarhúsa.

Höfundur er framkvæmdastjóri Eignaumsjónar hf.




Skoðun

Sjá meira


×