Skilaboð sóttvarnayfirvalda hafa lengi framan af verið að óþarfi væri að bólusetja börn gegn Covid-19 þar sem veikindi þeirra séu mun vægari en fullorðinna. Síðustu mánuði hefur hins vegar lang fjölmennasti hópur þeirra sem smitast verið á aldrinum 6-12 ára.
Sóttvarnalæknir tilkynnti svo í dag að ákveðið hefði verið að bjóða öllum börnum á aldrinum 5-11 ára upp á bólusetningu.
Ástæður þess væru meðal annars að COVID-19 geti verið alvarlegur sjúkdómur hjá börnum á þessum aldri. Virkni bólusetningar hjá börnum sé um 90%. Bólusetning barna minnkar líkur á langtíma áhrifum og alvarlegar aukverkanir eftir bólusetningu hafi enn sem komið er ekki verið tilkynntar.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir að 17 heilugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu sjái um að bólusetja börn í 75 skólum á höfuðborgarsvæðinu. Hún segir að börnin fái Pfizer- bóluefni.
„Þetta er Pfizer en daufari blanda en sama efni,“ segir Ragnheiður.
Forráðamenn barna fá send til sín boð um að skrá börn sín.
Ef foreldri kemst ekki með barninu sínu þá getur það í skráningarkerfinu sett hver á að fylgja barninu í bólusetningu,“ segir hún.
Ragnheiður segir að tillit verði tekið til foreldra sem vilji hinkra með bólusetningu.
„Fyrir þá foreldra sem vilja kannski bíða eða hugsa sig um þá verður í boði áfram að fá bólusetningu þannig að það verður alltaf opið hús fyrir þau börn,“ segir hún.
Ragnheiður segir að líka sé mælt með bólusetningu fyrir börn sem hafa fengið Covid.
„Þau þurfa að bíða í þrjá mánuði frá sýkingu þar til þau geta þegið bólusetningu,“ segir Ragnheiður.