Grindavík vann deildarleik liðanna laugardaginn 4. desember, 92-88. Liðin mættust aftur í átta liða úrslitum VÍS-bikars karla í gær.
Í viðtali við RÚV fyrir leikinn sagðist Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, ekki vilja vera með hljóðnema á sér því Grindvíkingar hafi hlustað á leikhlé hans í deildarleiknum um þarsíðustu helgi.
„Mér var bent á að Grindvíkingar hefðu örugglega hlustað á leikhléið okkar síðast sem er bara klókt hjá þeim. Ég ætla ekki að brenna mig á því aftur. Ef þeir ná að nýta það sér í hag vil ég það ekki,“ sagði Arnar í viðtalinu við RÚV.
„Þetta er ekkert það flókið. Það truflar mig ekki að vera með þetta en um leið og þetta hugsanlega, ég veit ekki hvort það sé þannig, gert það að verkum að minnka líkur okkar á að vinna ætla ég ekki að gera þetta.“
Í samtali við Vísi í dag hafnaði Daníel því að Grindvíkingar hefðu legið á hleri í leikhléum Stjörnumanna. „Nei, nei,“ sagði Daníel og lét þar við sitja.
Stjarnan vann leikinn í gærkvöldi, 85-76, og komst þar með í undanúrslit VÍS-bikarsins.