Innlent

Útilokar ekki málsókn vegna meints ritstuldar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Bergsveinn Birgisson rithöfundur og fræðamaður.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Bergsveinn Birgisson rithöfundur og fræðamaður.

Bergsveinn Birgisson, rithöfundur og fræðamaður, segist munu bíða niðurstöðu siðanefndar Háskóla Íslands áður en hann tekur ákvörðun um mögulega málshöfðun á hendur Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra, sem hann hefur sakað um ritstuld.

Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.

„Ef að ske kynni að þeir myndu segja að þetta væri ekki á þeirra borði verð ég vitanlega að leita réttar míns annars staðar,“ hefur Fréttablaðið eftir Bergsveini, sem segir að það myndi væntanlega gerast í Noregi, þar sem bók hans Leitin að svarta víkingnum kom fyrst út.

Ásgeir hefur hafnað ásökunum Bergsveins.

Henry Alexander Henrysson heimspekingur, sem á sæti í siðanefnd, staðfestir að nefndinni hafi borist erindi frá Bergsveini en segir að málsmeðferðin geti tekið allt að hálft ár.

Fréttablaðið hefur eftir Vilborgu Davíðsdóttur, varaformanni Rithöfundasambandsins, að mál er varða rit- og hugmyndastuld séu mjög erfið. 

„Fé­lags­menn hafa leitað til okkar og um­ræðan hefur verið í gangi í stéttinni um það hver á hug­mynd og hvað stuldur er. Um höfundar­réttar­mál í því víða sam­hengi, og það ætlum við að taka fyrir á mál­þingi í febrúar,“ segir hún.

Umfjöllun Fréttablaðsins.


Tengdar fréttir

Seðla­banka­stjóri vísar á­sökunum um rit­stuld á bug

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sendi nýverið frá sér bók þar sem hann fjallar um landnám Íslands. Eyjan hans Ingólfs heitir bókin sú en Bergsveinn Birgisson rithöfundur og fræðimaður segir Ásgeir fara ránshendi um bók sína Leitin að svarta víkingnum án þess að geta heimilda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×