Í frétt ríkisútvarps Ástralíu (ABC) segir að 260 farþegum og áhafnarmeðlimum flugvélarinnar sem fólkið var í hafi verið gert að fara í fjórtán daga sóttkví.
Ómíkron-afbrigðið hefur nú greinst í nokkrum heimsálfum. Það hefur meðal annars greinst í Þýskalandi, Ítalíu, Belgíu, Ísrael, Hong Kong og ríkjum í sunnanverðri Afríku.
Enn er tiltölulega lítið vitað um afbrigðið en það er töluvert mikið stökkbreytt samanborið við Delta-afbrigðið sem er ráðandi í heiminum. Vísindamenn óttast að það dreifist auðveldar manna á milli og komist auðveldar hjá þeim vörnum sem bóluefni gegn Covid-19 veita, vegna stökkbreytinganna.
Ríki víða um heim hafa beitt ferðatakmörkunum sem beinast að ríkjum sunnanverðrar Afríku og er ætlað að koma í veg fyrir dreifingu Ómíkron-afbrigðisins. Engir hafa þó gengið jafn langt og Ísraelsmenn sem hafa lokað landamærunum gagnvart öllum nema Ísraelum.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur þó varað við því fólk fari ekki fram úr sér, ef svo má að orði komast, áður en frekari upplýsingar af um afbrigðið liggja fyrir.
Stofnunin hefur einnig gagnrýnt auðugri þjóðir heimsins fyrir að sanka að sér bóluefnum. Bóluefna-ójöfnuður leiði til frekari dreifingar Covid-19 og þar af leiðandi séu meiri líkur á því að ný afbrigði stingi upp kollinum.
Hoarding of #COVID19 vaccines by some countries & lack of global solidarity makes us vulnerable not only to this virus, but also to the next ones that may come along. #VaccinEquity
— World Health Organization (WHO) (@WHO) November 28, 2021
Join our fight to end the pandemic: https://t.co/A5OzBgY9oi pic.twitter.com/EydVbvJsfk
AP fréttaveitan hefur eftir Anthony Fauci, sóttvarnalækni Bandaríkjanna, að það kæmi honum ekki á óvart ef Ómíkron-afbrigðið væri þegar í dreifingu þar á landi. Það hefði ekki greinst enn en miðað við hvað það virðist dreifast auðveldlega manna á milli sagði Fauci líklegt að afbrigðið myndi fara „út um allt“.
Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir á ónæmisfræðideild Landspítala, sagði sömuleiðis í gær að allar líkur væru á því að Ómíkron-afbrigðið bærist hingað til lands.
„Ég tel nú að það muni vernda okkur að einhverju leiti, sérstaklega þá sem eru búnir að fá örvunarskammtinn, en hversu mikla vernd það veitir miðað við Delta afbrigðið, það er of snemmt að segja til um það,“ sagði Björn í samtali við Vísi.