Bragi fer því úr toppliði úrvalsdeildarinnar til næstefsta liðsins í 1. deildinni. Grindvíkingar hafa unnið fimm af sex leikjum sínum en Haukarnir eru með sex sigra í sjö leikjum.
Grindvíkingar segja frá þessum félagsskiptum á sinni síðu og að hinn átján ára gamli Bragi hafi óskað eftir því að fá að skipta yfir í Hauka með það fyrir augum að fá meiri spilatíma á yfirstandandi keppnistímabili.
Bragi hefur leikið tæpar átta mínútur að meðaltali í leik í Subway-deildinni í vetur og var með 2,0 stig og 0,8 stoðsendingar að meðaltali í leik.
Stjórn Körfuknattleiksdeildar Grindavíkur óskar Braga góðs gengis með Haukum í vetur í frétt sinni en vonast um leið til að sjá hann aftur í gula búningnum með Grindavík í HS Orku Höllinni áður en langt um líður.
Bragi er langt frá því að vera sá fyrsti í fjölskyldunni til að spila fyrir Hauka.
Bæði faðir hans og móðir, Guðmundur Bragason og Stefanía Sigríður Jónsdóttir, spiluðu með Haukum á sínum tíma og það gerði einnig eldri bróðir hans Ingvi Þór Guðmundsson.
Ingvi Þór var með 10,1 stig í leik með Haukum fyrri hluta 2020-21 tímabilsins.
Guðmundur Bragason spilaði þrjú tímabil með Haukum frá 1999 til 2002. Hans besta tímabil var 1999-2000 þegar hann var með 16,9 stig og 10,4 fráköst að meðaltali í leik.
Stefanía Sigríður spilaði með Haukum bæði í úrvalsdeild og 1. deild en 2002-03 tímabilið var hún með 7,5 stig og 4,6 stoðsendingar að meðaltali í leik. Bragi er fæddur í október 2003.