Körfubolti

Einu sigrarnir komið gegn Lakers sem eru aftur án LeBron James

Sindri Sverrisson skrifar
LeBron James var í borgaralegum klæðum á bekknum hjá LA Lakers í gærkvöld en ekki er alveg ljóst hve lengi hann verður frá keppni. Meiðslin munu þó vera minni háttar.
LeBron James var í borgaralegum klæðum á bekknum hjá LA Lakers í gærkvöld en ekki er alveg ljóst hve lengi hann verður frá keppni. Meiðslin munu þó vera minni háttar. AP/Marcio Jose Sanchez

Meiðsli halda áfram að angra LeBron James sem missti af tveimur leikjum í október. Hann lék ekki með LA Lakers í nótt eftir að hafa tognað í kvið og verður frá keppni í að minnsta kosti viku.

Lakers hafa tapað fjórum af níu fyrstu leikjum sínum á leiktíðinni í NBA-deildinni í körfubolta. Tvö tapanna hafa komið gegn Oklahoma City Thunder sem vann dísætan 107-104 sigur í leik liðanna í nótt. 

Þetta eru jafnframt einu tveir sigrar Oklahoma til þessa, í átta leikjum.

Í nótt vann Oklahoma upp 19 stiga forskot sem Lakers náðu um miðjan 2. leikhluta og komst í fyrsta sinn yfir þegar um fimm mínútur voru eftir af leiknum.

„Við hefðum ekki átt að tapa þessum leik,“ sagði Anthony Davis sem skoraði 29 stig og tók 19 fráköst fyrir Lakers.

„Þetta snerist ekki um það að LeBron væri ekki hérna… Það er í lagi með okkur en það er sárt að tapa fyrir sama liði tvisvar á einni viku með sams konar hætti. Við verðum að horfast í augu við það og takast á við það,“ sagði Davis.

Shai Gilgeous-Alexander skoraði 11 af 28 stigum sínum fyrir Oklahoma í lokaleikhlutanum. Þar á meðal þriggja stiga körfu frá miðju þegar 1 mínúta og 18 sekúndur voru eftir.

Nóg var eftir af skotklukkunni og Oklahoma aðeins þremur stigum yfir en Gilgeous-Alexander var fyrirgefið þar sem boltinn fór ofan í.

„Ef þetta hefði verið einhver annar þá hefði ég sagt eitthvað. En fyrst þetta er Shai þá er það í lagi. Hann er einstakur leikmaður,“ sagði Kenrich Williams sem skoraði níu af 13 stigum sínum í lokaleikhlutanum.

Úrslitin í gær:

  • Detroit 98-109 Philadelphia
  • Atlanta 98-116 Utah
  • Miami 78-95 Boston
  • Phoenix 123-111 Houston
  • LA Lakers 104-107 Oklahoma
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×