Körfubolti

Embiid um Ben Simmons: Fæ ekki borgað fyrir að vera í barnapössun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joel Embiid ræðir við blaðamenn í gær sem vildu frá hans viðbrögð við því að  Ben Simmons var rekinn af æfingu og settur í eins leiks bann af sínu eigin félagi.
Joel Embiid ræðir við blaðamenn í gær sem vildu frá hans viðbrögð við því að  Ben Simmons var rekinn af æfingu og settur í eins leiks bann af sínu eigin félagi. AP/Matt Rourke

Ben Simmons verður ekki með Philadelphia 76ers í fyrsta leik liðsins á NBA tímabilinu sem er á móti New Orleans Pelicans í nótt. Félagið setti Simmons í eins leiks bann eftir að hann var rekinn af æfingu í gær fyrir að meðal annars neita að gera það sem þjálfarinn bað hann um.

Mikið hefur verið gert úr fýlu Ben Simmons en hann var þó kominn aftur til móts við félagið og er byrjaður að æfa. Það er ekki alveg að ganga nægilega vel.

Hin stórstjarna liðsins, Joel Embiid, svaraði spurningum um Ben Simmons eftir æfinguna og hann fór ekkert leynt með það að hann sé endanlega búinn að fá nóg af barnalegum liðsfélaga sínum.

„Mér er alveg sama um þennan mann,“ sagði Joel Embiid og segir að ekkert hafi breyst í hegðun Ben Simmons þó að hann sé kominn til baka.

„Ég er að reyna að vinna. Til þess að vinna þá þarftu að vera í sambandi við liðsfélaga þína. Ég hef það samband við alla mína liðsfélaga,“ sagði Embiid.

„Þegar allt er á botninn hvolft þá er það ekki mitt starf að vera barnapía. Við fáum borgað fyrir að standa okkur inn á vellinum, fara út, spila af krafti og reyna að vinna leiki. Fyrir það fæ ég borgað,“ sagði Embiid.

„Við fáum ekki borgað fyrir að koma hér og vera í barnapössun. Það er ekki okkar starf og ég er viss um að liðsfélagar mínir eru á sama máli,“ sagði Embiid.

„Við erum einbeittir á það að vinna og að spila saman sem eitt lið,“ sagði Embiid.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×