Upphaflega var talið að árásarmaðurinn hefði myrt fólk með boga og örvum á miðvikudagskvöld í síðustu viku. Hann skaut lögreglumann á frívakt með ör í verslun í miðborginni áður en hann komst undan. Lögregla telur að hann hafi framið öll morðin eftir fyrstu viðskipti hans við lögreglumenn.
Nú segir lögreglan að öll fórnarlömbin, fjórar konur og einn karl, hafi verið myrt með tveimur eggvopnum. Yngsta fórnarlambið var 52 ára en það elsta 78 ára.
Svo virðist sem að árásarmaðurinn, sem 37 ára gamall karlmaður af dönskum ættum sem er talinn eiga við geðræn vandamál að stríða, hafi losað sig við bogann eftir átökin við lögreglu í versluninni. Hann virðist þó hafa skotið örvum að vegfarendum á flóttanum.
Per Thomas Omholt, rannsóknarlögreglumaður, útskýrði ekki hvers vegna það hefði tekið lögregluna sex daga að komast að því hvernig fólkið var myrt, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.
Telja veikindin líklegri skýringu en öfgahyggju
Omholt sagði að svo virtist sem að fórmarlömbin hafi árásarmaðurinn valið af handahófi. Hann vildi ekki gefa upp hvers konar eggvopn hann hefði notað.
Fyrst eftir árásina var talið að um mögulega hefði verið um hryðjuverk að ræða. Árásarmaðurinn hefði snúist til íslamstrúar og hneigst að öfgahyggju. Nú telur lögreglan veikindi hans líklegri skýringu á gjörðum hans. Ekki liggur fyrir hvort að hann verði metinn sakhæfur. Hann er nú vistaður á heilbrigðisstofnun.
Öryggisstofnun Noregs (PST) hafði fengið nokkrar ábendingar um árásarmannninn undanfarin ár. Æskuvinur hans lét lögregluna vita af myndbandi sem hann birti á samfélagsmiðlinum Youtube árið 2017. Ári síðar lét stofnunin heilbrigðisyfirvöld vita af því að hann kynni að vera alvarlega geðveikur, að því er segir í frétt norska ríkisútvarpsins NRK.