Anton Poliakov veiktist skyndilega og lést í leigubíl. Saksóknarar segja að hann hafi fengið hjartaáfall. Lögreglumenn fundu hann meðvitundarlausan í leigubílnum þegar þeir stöðvuðu ökumanninn vegna umferðarlagabrots. Poliakov var 33 ára gamall.
Lögreglustjórinn í Kænugarði segir að lögregla telji að Poliakov hafi látist af náttúrulegum orsökum en ekki sé hægt að fullyrða það með fullri vissu. Rannsókn sé í gangi á dauða hans.
Poliakov tilheyrði flokknum Fyrir framtíðina sem hefur verið bendlaður við Ihor Kolomoiskí, einn auðugasta mann Úkraínu. Hann sagði skilið við Þjóna þjóðarinnar, flokk Volodýmýrs Zelenskíj, forseta, vegna ágreinings um stefnumál, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Poliakov var einn af þeim þingmönnum sem lögðu fram þúsundir breytingatillagna við frumvarp um bankamál sem var talið ganga gegn hagsmunum Kolmoiskí.
Leigubílstjórinn segir að Poliakov hafi komið í bílinn við stoppistöð utan við miðborgina. Skömmu síðar hafi hann kvartað undan veikindum.
Að sögn lögreglu hafði Poliakov verið á veitingahúsi og drukkið áfengi áður. Eftir það hafi hann farið upp í bíl með öðrum karlmanni og ekið um í eina og hálfa klukkustund. Hann hafi ekki farið heim til sín þar sem hann átti í einhvers konar erjum við sambýliskonu sína sem er einnig þingmaður sem yfirgaf flokk forsetans.
Óþekktur árásarmaður réðst á Poliakov þannig að hann þurfti á læknisaðstoð að halda í september í fyrra.
Zelenskíj forseti og flokkur hans hafa reynt að takmarka völd hóps auðmanna sem eru jafnan kallaðir ólígarkar í Úkraínu. Óþekktir menn reyndu að ráða einn nánasta ráðgjafa forsetans af dögum í síðasta mánuði.