Viðskipti innlent

Ekki færri íbúðir í byggingu síðan 2017

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Framkvæmdir standa yfir á Héðinsreitnum í Vesturbæ Reykjavíkur. Reiknað er með því að 300 íbúðir rísi á reitnum. Einkum er um að ræða smærri íbúðir.
Framkvæmdir standa yfir á Héðinsreitnum í Vesturbæ Reykjavíkur. Reiknað er með því að 300 íbúðir rísi á reitnum. Einkum er um að ræða smærri íbúðir. Vísir/Vilhelm

Áframhaldandi samdráttur er í byggingu nýrra íbúða á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins (SI). Ekki hafa verið færri íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu síðan í mars 2017.

Nú eru 3.387 íbúðir í byggingu samkvæmt greiningunni, en á sama tíma í fyrra voru íbúðir í byggingu 4.127 talsins. Samdráttur milli ára er því um 18%.

Í greiningunni kemur einnig fram að fullgerðum íbúðum hafi fækkað á milli ára, úr 1.097 íbúðum í 353 íbúðir. Fækkunina megi meðal annars rekja til aukinnar sölu á fullbúnum íbúðum.

„Mikið af þeim íbúðum sem eru nú á síðustu byggingastigum í talningunni eru raunar seldar en íbúð er talin með þar til flutt er inn í hana. Framboð fullbúinna íbúða er því minna en talningin ber með sér,“ segir í tilkynningu SI.

SI áætla að 1.646 íbúðir fari á markað á höfuðborgarsvæðinu árið 2022 og 1.764 árið þar á eftir. Í nágrannasveitarfélögum er gert ráð fyrir 425 íbúðum á markað 2022 og 575 árið 2023. 

Spáin er því örlítið bjartsýnni en spá SI frá árinu 2020,en þar var áætlað að 1.923 fullbúnar íbúðir kæmu á markað árið 2022.


Tengdar fréttir

Hlut­fall í­búða sem seljast á yfir­verði lækkar í fyrsta sinn síðan í janúar

Nokkuð hefur dregið úr umsvifum á fasteignamarkaði á undanförnum mánuðum, en á höfuðborgarsvæðinu dróst fjöldi kaupsamninga saman um 20 prósent á milli mánaðanna júní og júlí og um 25 prósent miðað við júlí í fyrra. Verð á sérbýli hækkar áfram meira en verð íbúða í fjölbýli og þá lækkar hlutfall íbúða sem seljast á yfirverði í fyrsta sinn síðan í janúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×