Innlent

Mikill vatnselgur myndaðist á Siglufirði

Kjartan Kjartansson skrifar
Vatn safnaðist saman á tveimur stöðum á eyrinni á Siglufirði þegar hlánaði og rigndi eftir hádegið.
Vatn safnaðist saman á tveimur stöðum á eyrinni á Siglufirði þegar hlánaði og rigndi eftir hádegið. Slökkviliðið á Siglufirði

Slökkviliðs- og björgunarsveitarmenn aðstoðuðu íbúa í nokkrum húsum þar sem vatn flæddi inn á Siglufirði í lægðinni sem gekk yfir landið í gær. Annar var tíðindalaust hjá björgunarsveitum á landinu eftir klukkan 22:00 í gærkvöldi.

Töluvert var um útköll vegna ökumanna sem sátu fastir á heiðum á norðan- og austanverðu landinu í fyrstu stóru haustlægðinni sem gekk yfir landið í gær og nótt. Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að útköllum hafi fækkað hratt um níu leytið og allar björgunarsveitir hafi verið komnar í hvíld klukkan tíu í gærkvöldi. Engin útköll vegna veðurs bárust í nótt.

Töluvert annríki var þó hjá slökkviliði og björgunarsveitinni Strákum á Siglufirði þegar mikill vatnselgur myndaðist þar í gær. Jóhann K. Jóhannsson, slökkviliðsstjóri á Siglufirði, segir að aðeins hafi gert vind þar í eina til tvær klukkustundir fyrst þegar lægðin gerði vart við sig. 

„Strax eftir hádegi fór að hlána og rigna ofan í þetta þannig að það myndaðist mikill vatnselgur í bænum við bráðnun. Svo var sömuleiðis há sjávarstaða þannig að fráfall hafði ekki alveg við,“ segir Jóhann við Vísi.

Töluvert snjóaði í fyrrinótt og fyrst þegar veðrið byrjaði. Snjórinn torveldaði vatninu að komast sína leið.

Slökkviliðið og björgunarsveitin Strákar brugðust saman við útköllum vegna vatnselgsins í gær.Slökkviliðið á Siglufirði

Því myndaðist verulegur vatnselgur á tveimur stöðum í bænum og bárust nokkrar beiðnir frá íbúum um aðstoð við að dæla vatni úr kjöllurum eða um vatnsryksugur þar sem vatn flæddi inn um aðalinngang. Jóhann segir að slökkviliðið og björgunarsveitin hafi skipt verkefnunum á milli sín og vel hafi gengið að leysa þau.

Ekki var sjáanlegt tjón þar sem vatn flæddi inn, að sögn slökkviliðsstjórans. Hann útilokar þó ekki að einhverjar skemmdir hafi orðið á húsum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×