Veður

Lægðin ekki dauð úr öllum æðum

Atli Ísleifsson skrifar
Lægðin veldur sunnan- og suðvestan strekkingi á landinu með skúrum eða slydduéljum.
Lægðin veldur sunnan- og suðvestan strekkingi á landinu með skúrum eða slydduéljum. Vísir/Vilhelm

Lægðin sem olli illviðrinu í gær er nú stödd við Snæfellsnes, en hefur grynnst mikið. Lægðin er þó ekki dauð úr öllum æðum og í dag veldur hún sunnan- og suðvestan strekkingi á landinu með skúrum eða slydduéljum.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að reikna megi með hægari vindi og bjartviðri norðaustantil. Hiti verður á bilinu eitt til sex stig.

„Í kvöld og nótt lægir meira á landinu, þegar áðurnefnd lægð fjarlægist og grynnist meira og er hún þar með úr sögunni.

Á morgun nálgast önnur lægð suðaustanvert landið úr suðri. Þá er útlit fyrir hægt vaxandi norðaustanátt, víða strekkingur síðdegis, en hvassviðri eða jafnvel stormur suðaustanlands annað kvöld. Ringing af og til á austanverðu landinu á morgun, en þurrt vestantil. Hlýnar lítillega í veðri,“ segir í tilkynningunni.

Spákortið fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag: Vaxandi norðaustanátt, 10-18 m/s síðdegis, en 18-23 suðaustanlands. Rigning á austanverðu landinu, en þurrt vestantil. Hiti víða 2 til 7 stig.

Á föstudag og laugardag: Norðaustan og norðan 8-15 og rigning, en þurrt að kalla sunnan heiða. Hiti 3 til 9 stig, mildast syðst á landinu.

Á sunnudag og mánudag: Stíf norðanátt. Rigning, slydda eða snjókoma á norðanverðu landinu, en þurrt sunnantil. Hiti frá frostmarki í innsveitum fyrir norðan, upp í 8 stig við suðurströndina.

Á þriðjudag: Austan og suðaustanátt og rigning með köflum sunnanlands, hiti 2 til 7 stig. Þurrt um landið norðanvert og hiti kringum frostmark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×