Innlent

Beitti skralli og skrúfjárni í líkamsárás

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Landsréttur
Landsréttur Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir manni sem sakfelldur var fyrir að hafa slegið annan mann í höfuðið með skralli úr topplyklasetti og stungið hann í sköflunginn með skrúfjárni, auk annarra brota.

Á síðasta ári var maðurinn sakfelldur í héraðsdómi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás vegna fyrrgreindrar líkamsárásar. Var hann einnig sakfelldur fyrir að hafa hótað sama manni líkamsmeiðingum, er hann hélt á hamri. Að auki var hann sakfelldur í héraðsdómi fyrir hafa ekið bifreið undir áhrifum fíkniefna, og fyrir vörslu á 0,65 grömmum af amfetamíni.

Við meðferð málsins í héraði játaði maðurinn sakargiftir að undanskildu því að hann neitaði að hafa stungið brotaþolann í vinstri sköflung með skrúfjárni, og var dómi héraðsdóms í málinu áfrýjað til Landsréttar.

Þar krafðist maðurinn þess að hann yrði sýknaður af því að hafa stungið manninn með skrúfjárni.

Í dómi Landsréttar segir að samkvæmt mati réttarmeinafræðings gætu útlínur áverkans á brotaþola það til kynna að hann væri af völdum höggs með frekar mjóu og beittu eða hálfbeittu áhaldi, sem notað hafi verið af mikilli ákefð, mögulega skrúfjárni. Með vísan til gagna málsins taldi Landsréttur það hafið yfir skynsamlegan vafa að maðurnn hefði stungið brotaþola með skrúfjárni.

Var dómur héraðsdóms því staðfestur og maðurinn dæmdur í sextán mánaða fangelsi, að frádregnum þeim dögum sem hann sat í gæsluvarðhaldi vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×