Erlent

Johnson hreinsar út úr ráðuneytum

Samúel Karl Ólason skrifar
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AP/Alberto Pezzali

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, gerði í dag talsverðar breytingar á ríkisstjórn sinni. Meðal annars vék hann Dominic Raab úr embætti utanríkisráðherra og gerði hann í staðinn að dómsmálaráðherra og aðstoðarforsætisráðherra.

Raab er sagður hafa brugðist reiður við þessum vendingum. Liz Truss hefur verið gerð að utanríkisráðherra. Hún var áður viðskiptaráðherra Bretlands en hún hefur verið ráðherra samfleytt frá 2014, þó í mismunandi ráðuneytum.

Forsætisráðherrann gerði breytingar á mörgum embættum í ríkisstjórn sinni á þessum tíðindamikla degi í Downing-stræti.

Johnson vék einnig Gavin Williamsson úr embætti menntamálaráðherra og Robert Buckland úr embætti dómsmálaráðherra. Þá vék hann Robert Jenrick úr embætti húsnæðismálaráðherra. Aðrir ráðherrar voru færðir milli ráðuneyta.

Raab hafði orðið fyrir mikilli gagnrýni vegna þess hvernig haldið var utan um brottflutning Breta frá Afganistan. Annars er enn óljóst af hverju Johnson sópaði honum út úr utanríkisráðuneytinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×