Skoðun

Ríkis­stjórnin fallin – eða hvað?

Magnús D. Norðdahl skrifar

Í íslenskum stjórnmálum hefur frasinn að ganga óbundinn til kosninga verið vinsæll. Kjósendur hafa þannig greitt tilteknum flokkum atkvæði án þess að vita fyrirfram hvaða stjórnarsamstarf viðkomandi flokkur myndi helst kjósa.

Í nýafstöðnum kosningum í Noregi vissu kjósendur þar í landi fyrirfram hvaða flokkar myndu vilja starfa saman eftir kosningar. Slíkt fyrirkomulag er til fyrirmyndar og eðlilegt í lýðræðisríki. Kjósendur eiga auðvitað rétt á því að vita hvort atkvæði greitt ákveðnum flokki sé jafnframt atkvæði greitt tilteknu stjórnarsamstarfi.

Samkvæmt skoðanakönnunum eru Píratar, Samfylking, Viðreisn og Framsókn í töluverðri sókn og munu ef að líkum lætur verða þeir flokkar sem mest bæta við sig í komandi kosningum. Píratar hafa gefið það út mjög skýrt að þeir muni ekki standa að myndun ríkisstjórnar með Sjálfstæðisflokknum. Slíkt hið sama hefur Samfylking gert. Katrín Jakobsdóttir núverandi forsætisráðherra hefur síðan lýst því yfir að VG muni ræða fyrst við Sjálfstæðisflokk um áframhaldandi samstarf og sama má ætla að sé raunin með Framsókn enda hafa þessir flokkar verið saman í stjórn síðastliðin 4 ár.

Afstaða Viðreisnar hvað stjórnarsamstarf varðar liggur hins vegar ekki fyrir. Vill flokkurinn, hvers formaður var áður varaformaður Sjálfstæðisflokksins, vinna með núverandi ríkisstjórn eða taka þátt í myndun nýrrar frjálslyndrar og félagshyggjusinnaðrar umbótastjórnar?

Er ekki rétt að Viðreisn sýni kjósendum þá virðingu að svara því skilmerkilega með hverjum þeir vilji helst starfa að afloknum kosningum og hvort þeim finnist fýsilegt að ganga inn í núverandi stjórn?

Rétt eins og neytendur eiga rétt á upplýsingum um innihald vöru eiga kjósendur rétt á skýrum og skilmerkilegum upplýsingum um raunveruleg áform stjórnmálaflokka. Þetta er í senn forsenda fyrir framgangi lýðræðis og kosningaþátttöku almennings. Traust og gagnsæi eiga mikilvægan þátt í að almenningur sé upplýstur og þar af leiðandi hæfur til lýðræðislegrar þátttöku.

Höfundur er oddviti Pírata í Norðvesturkjördæmi.




Skoðun

Sjá meira


×