Tónlist

Radiohead gróf upp áður ó­ut­gefið lag til að kynna nýja endur­út­gáfu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Thom Yorke, söngvari Radiohead,  á tónleikaferðalagi um Bandaríkin árið 2001, sama ár og Amnesiac kom út.
Thom Yorke, söngvari Radiohead,  á tónleikaferðalagi um Bandaríkin árið 2001, sama ár og Amnesiac kom út. John Shearer/WireImage)

Breska hljómsveitin Radiohead hefur gefið út áður óútgefið lag til þess að kynna nýja endurútgafu af plötunum Kid A og Amnesiac. Hljómsveitin hefur undanfarin ár verið að kafa ofan í fjársjóðskistuna og hafa ýmsir áður faldir gullmolar litið dagsins ljós.

Hljómsveitin tilkynnti í dag að þann 5. nóvember myndi sérstök endurútgáfa af plötunum koma út undir auk nýrrar plötu sem nefnt hefur verið Kid Amnesiae. Á henni má finna bæði áður óútgefin lög og hálfkláraðar útgáfur af þekktari lögum sem áður hafa verið gefin út og voru samin á sama tíma og önnur lög á Kid A og Amnesiac.

Tuttugu ár frá því að Amnesiac kom út

Hljómsveitin hljóðritaði plöturnar tvær á sama tíma, en ár leið á milli útgáfu þeirra. Kid A kom út árið 2000 en Amnesiac árið 2001, og fagnaði hún því tuttugu ára afmæli á árinu.

Er þessi útgáfa í stíl við endurútgáfu hljómsveitarinnar á plötunni OK Computer árið 2017 en henni fylgdi aukaplata sem var uppfull af lögum sem höfðu ekki verið gefin út áður.

Hljómsveitin hefur haft heldur hægt um sig frá því að A Moon Shaped Pool, síðasta breiðskífa hljómsveitarinnar kom út árið 2016. Aðdáendur hljómsveitarinnar goðsagnakenndu fagna því eflaust að samhliða því að tilkynnt var um endurútgáfu Kid A og Amnesiac í dag gaf hljómsveitin út eitt af lögunum sem mun koma út á plötunni Kid Amnesia.

Um er að ræða lag sem hljómsveitin samdi og vann að við upptökur á Kid A og Amnesiac. Lagið heitir If You Say the Word, en æstir aðdáendur kannast mögulega við lagið undir heitinu C-Minor Song. Minntist Ed O' Brien, gítarleikari hljómsveitarinnar ítrekað á lagið í bloggi sem hann skrifaði á meðan hljómsveitin tók upp Kid A og Amnesiac. Lagið hefur þó aldrei litið dagsins ljós, fyrr en nú.

Sem fyrr segir hafa meðlimir Radiohead eytt töluverðu púðri að undanförnu við það að grafa upp eldra efni. Þannig gerðu þeir mikinn fjölda tónleikaupptaka, tónlistarmyndbanda, æfingarefnis og listaverka, svo dæmi séu tekin, aðgengilegan á einum stað á síðasta ári.

Safnið er aðgengilegt á vef Radiohead og fékk vefsvæðið nafnið Radiohead Public Library sem þýða mætti sem Almenningsbókasafn Radiohead.


Tengdar fréttir

Radiohead opnar fjársjóðskistuna

Breska hljómsveitin Radiohead hefur opnað fjársjóðskistuna og gert mikinn fjölda tónleikaupptaka, tónlistarmyndbanda, æfingarefnis og listaverka, svo dæmi séu tekin, aðgengilegan á einum stað.

Lagið sem hefði gert Radiohead of vinsæla loks að koma út

Síðar í þessum mánuði verða tuttugu ár frá því að meistaraverk Radiohead, platan OK Computer, var gefin út. Til þess að minnast þess áfanga mun hljómsveitin gefa út viðhafnarútgáfu af plötunni þar sem með fylgja lög sem tekin voru upp á sama tíma og OK Computer en fengu ekki að að fljóta með á plötunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×