Erlent

Björguðu týndum þriggja ára dreng eftir fjóra daga í skóginum

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla í ríkinu birti í morgun myndband úr þyrlunni þar sem má sjá augnablikið þar sem drengurinn fannst.
Lögregla í ríkinu birti í morgun myndband úr þyrlunni þar sem má sjá augnablikið þar sem drengurinn fannst. Lögregla í NSW

Þriggja ára drengur sem týndist í skógi í Ástralíu fyrir fjórum dögum fannst heill á húfi í morgun eftir umfangsmikla leit.

Björgunarlið í þyrlum tóku eftir drengnum, Anthony „AJ“ Elfalak, í morgun þar sem hann var að fá sér vatn að drekka úr læk á landi fjölskyldu sinnar í sveitum Nýju-Suður Wales.

Í frétt BBC segir að síðast hafi sést til drengsins, sem sé einhverfur og tali ekki, á föstudaginn. Hafi fjölskylda hans óttast að honum hafi verið rænt.

Björgunarlið fann hins vegar drenginn við lækjarbakka inni í skógi um hálfum kílómetra frá heimili drengsins í bænum Putty í norðurhluta ríkisins.

Lögregla í ríkinu birti í morgun myndband úr þyrlunni þar sem má sjá augnablikið þar sem drengurinn fannst.

Talsmaður yfirvalda segir drengurinn hafi verið blautur, sem skrámur á fæti en annars verið heill heilsu.

Um hundrað manns tóku þátt í leitinni og segir faðir drengsins það vera „kraftaverk“ að hann hafi fundist. „Hann hefur verið bitinn af maurum og hrasaði en hann er á lífi. Hann er á lífi,“ sagði faðirinn Anthony Elfalak í samtali við fjölmiðla.

Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu sagðist í tíst vera feginn að heyra að drengurinn væri fundinn heill á húfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×