Erlent

Bensíni með blýi útrýmt í heiminum

Kjartan Kjartansson skrifar
Alsír var síðasta ríkið til að hætta notkun blýblandaðs bensíns.
Alsír var síðasta ríkið til að hætta notkun blýblandaðs bensíns. AP/Anis Belghoul

Ekkert land í heiminum notar lengur bensín með blýi til að knýja bifreiðar eftir að síðustu dropar þess kláruðust í Alsír í júlí. Blýi var blandað út í bensíni í hátt í heila öld þrátt fyrir að það mengaði loft, jarðveg og vatn.

Nær öll þróuð ríki höfðu bannað bensín með blýi á 9. áratug síðustu aldar þar sem það getur valdið hjartasjúkdómum, krabbameini og heilablóðfalli auk þess sem það hefur verið tengt við heilaskaða í börnum. Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna segir að rannsóknir sýni að blýið hafi valdið milljónum ótímabærra dauðsfalla og skert greind barna.

Tugir þjóða héldu samt áfram að blanda blýi í bensín langt fram á þessa öld. Norður-Kórea, Búrma og Afganistan hættu sölu á eldsneytinu árið 2016. Írak, Jemen og Alsír hafa nú hætt notkun þess sömuleiðis.

Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir útrýmingu blýblandaðs bensíns alþjóðlegan sigur sem muni koma í veg fyrir fleiri en milljón ótímabær dauðsföll á hverju ári.

Byrjað var að blanda blýi út í bensín til að bæta afköst bílvéla á þriðja áratug síðustu aldar. Fljótlega komu þó fram vísbendingar um það ógnaði heilsu fólks. Fimm starfsmenn olíuhreinsistöðvar bandaríska olíufélagsins Standard Oil létust og tugir voru lagðir inn á sjúkrahús með flogaeinkenni árið 1924, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Engu að síður var haldið áfram að blanda blýi út í eldsneyti um allan heim fram á 8. áratuginn. Janet McCabe, varaforstjóri Umhverfisstofnunar Bandaríkjanna (EPA), segir AP-fréttastofunni að magn blýs í blóði fólks hafi hríðfallið eftir að bensín með blýi var bannað þar í landi.

Blýblandað bensín er enn notað á litlar flugvélar. McCabe segir að EPA vinni að því með flugmálayfirvöldum að taka á því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×