Enn er verið að meta tjónið og aðstæður.
Enn sem komið er er vitað til þess að einn dó þegar tré féll á hann nærri Baton Rouge. Enn eru þó margir vegir ófærir og símasamband óstöðugt. Raunverulegt umfang skemmda og tjóns vegna Ídu liggur því enn ekki fyrir.

Fellibylurinn virðist hafa ollið sérstaklega miklum skemmdum á flutningskerfi Lúisíana. Hundruð rafmagns- og símastaura hafa hrunið víða. Talið er að það gæti tekið margar vikur að laga kerfið.
AP fréttaveitan segir fjögur sjúkrahús hafa orðið fyrir skemmdum og vitað sé til þess að 39 heilbrigðisstofnanir séu starfræktar með notkun ljósavéla.
Þjóðvarðlið Lúisíana hefur kallað út um 4.900 þjóðvarðliða til að koma að björgunarstörfum og munu þeir notast við fjölda báta, bíla og þyrla.

Þá hefur fréttaveitan eftir John Bel Edwards, ríkisstjóra Lúisíana, að varnarvirki sem hafi verið endurreist eftir að fellibylurinn Katrína lék íbúa ríkisins grátt árið 2005, hafi að mestu staðið af sér óveðrið í þetta skiptið. Þrátt fyrir það séu skemmdirnar mjög miklar og tjónið gífurlegt.
NBC News hefur eftir Edwards að tjónið sé sérstaklega mikið í suðausturhluta ríkisins og það að fjöldi látinna gæti hækkað töluvert á næstunni.
Hér má sjá myndband sem sýnir mann opna glugga þegar veggur auga fellibyljarins fór yfir heimili hans í gær. Myndbandið hefur vakið mikla athygli á internetinu.