Því þar sem fjarvinna er orðin að veruleika svo víða, er gert ráð fyrir að margir vinnustaðir muni breytast í það að verða fyrst og fremst staður fyrir starfsfólk að mæta á, ef það á þangað erindi.
Til dæmis að mæta á fund eða til að taka þátt í teymisvinnu.
Eða hreinlega til þess að hafa gaman með samstarfsfólki.
Hér eru nokkrir athyglisverðir punktar:
Vinnustaðir munu hverfa frá því að huga að góðum vinnustöðvum fyrir hvern og einn.
Þess í stað verður aukin áhersla á að skapa þægilegt andrúmsloft og spennandi félagsrými.
Að þessu sögðu er þó jafnframt gert ráð fyrir því að allt skipulag sé sveigjanlegt. Því það sem Covid hefur kennt atvinnulífinu er að allt getur breyst með mjög stuttum fyrirvara.
Skipulag þarf því að vera í sífelldri þróun.
Þá munu vinnustaðir horfa á mun fleiri þætti en áður þegar kemur að heilsu starfsfólks.
Hér mun tæknin meðal annars láta til sín taka.
Takkar í lyftum, hurðahúnar, slökkvarar og fleiri snertifletir munu heyra sögunni til. Þannig mun Covid hraða allri tæknivæðingu sem byggir á skynjurum frekar en snertiflötum.
Sóttvarnir munu áfram birtast í ýmsum myndum á vinnustöðum. Sem dæmi má nefna að í sameiginlegum rýmum starfsfólks er talið að vinnustaðir muni gera ráð fyrir því að fólk geti haldið fjarlægðarmörkum á milli sín ef það kýs svo. Til dæmis á fundum eða í hópavinnu.
Enn ein breytingin er líka sú að vinnustaðir munu horfa mun meira til andlegrar heilsu fólks í samanburði við fyrir Covid.
Einangrun eða útundanótti eru til dæmis fylgifiskar fjarvinnu. Til að mæta því og bæta upp þann missi sem fólk upplifir þegar það hættir að hitta samstarfsfólk sitt daglega, verður fókusinum beint að andlegri líðan og heilsu almennt. Þetta er nokkur breyting frá því sem verið hefur þar sem áhersla vinnustaða hefur meira beinst að líkamlegu hreysti.
Þá er því spáð að tæknirisarnir muni leggja meiri áherslu á að þróa nýjungar til að tryggja fólki sem bestu upplifunina og líðanina með tækninni.
Sem dæmi má nefna umhverfi fjarfunda sem sérfræðingar telja að risar eins og Microsoft og Google muni þróa þannig að þeir verði fyrst og fremst jákvæð upplifun fyrir þátttakendur, en ekki bara leið til að hittast og funda.
Grein BBC má lesa hér.
Í nýlegri skýrslu McKinsey segir einnig að Covid muni hraða breytingum fjórðu iðnbyltingarinnar enn frekar.
Þegar hafi verið fyrirséð að milljónir starfa myndu breytast vegna sjálfvirknivæðingar.
Að mati sérfræðinga McKinsey eru líklegar afleiðingar heimsfaraldurs hins vegar þær að um fjórðungur starfsfólks þarf að gera ráð fyrir því að störf þeirra muni breytast verulega í kjölfar Covid.