Bandalagið sem Danmörk og Kosta Ríka vilja koma á koppinn á að nefnast BOGA (Beyond Oil and Gas Alliance) samkvæmt drögum að stofnskjölum sem Reuters-fréttastofan hefur séð. Meginmarkmið bandalagsins verður að takmarka olíu- og gasframleiðslu í samræmi við það sem þarf til að uppfylla markmið Parísarsamkomulagsins.
Ætlunin er að leggja til tímasetningu fyrir bæði þróuð ríki og þróunarríki til að taka úr notkun núverandi olíu- og gasframleiðslu sína. Þá þurfa ríki að skuldbinda sig til þess að hætta við leyfisveitingar fyrir ný olíu- og gasvinnsluverkefni í sinni lögsögu til að vera gjaldgeng í bandalagið.
Ríki gætu fengið hálfa aðild að bandalaginu með því að takmarka olíu- og gasframleiðslu, þar á meðal með því að hætta fjármögnun á henni erlendis eða með því að hætta niðurgreiðslum á jarðefnaeldsneyti.
Til stendur að kynna bandalagið á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow í Skotlandi í nóvember. Dan Jørgensen, loftslags-og orkumálaráðherra Danmerkur, segir Reuters að viðræður stand yfir við mörg ríki en of snemmt sé að segja hversu mörg þeirra ætli að ganga í bandalagið.
Banna frekari vinnslu í Norðursjó
Dönsk stjórnvöld ákváðu að banna frekar olíu- og gasvinnslu í Norðursjó og hætta núverandi vinnslu fyrir árið 2050. Olía hefur aldrei verið unnin í Kosta Ríka en þarlend stjórnvöld ætla að leggja til frumvarp um að það verði aldrei gert.
Bruni á jarðefnaeldsneyti er aðaluppspretta gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum á jörðinni. Varað var við því að hnattræn hlýnun gæti náð 1,5°C strax á næsta áratug jafnvel þó að dregið yrði hratt úr losun í nýrri skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem kom út fyrr í þessum mánuði.
Alþjóðaorkumálastofnunin segir að til þess að markmið Parísarsamkomulagsins um halda hlýnun innan við 1,5-2°C á þessari öld náist megi ekki ráðast í nein ný jarðefnaeldsneytisverkefni neins staðar á jörðinni.