Kosningastefnan ber yfirheitið Betra líf - fyrir þig, þína fjölskyldu og komandi kynslóðir og skiptist í fjóra hluta.
„Samfylkingin ætlar að leiða saman annars konar ríkisstjórn en þá sem nú situr. Ríkisstjórn sem setur fjölskyldur í forgang, er tilbúin að stórbæta kjör eldra fólks og öryrkja, byggja upp sterkara samfélag með nýrri atvinnustefnu, þar sem allir hafa aðgang að fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu og ráðast í alvöru aðgerðir í loftslagsmálum,“ sagði Logi Einarsson, formaður flokksins þegar hann kynnti stefnuna.
Hyggjast hækka barnabætur og grunnlífeyri
Samfylkingin leggur áherslu á hækkun barnabóta og bætingu kjara eldra fólks og öryrkja. Ætlaðar aðgerðir fela í sér upptöku norræns barnabótakerfis þar sem barnafjölskyldur með meðaltekjur fái allt að 54 þúsund krónur á mánuði, skattfrjálst.
Þá hyggst flokkurinn hækka grunnlífeyri eldra fólks og öryrkja til samræmis við Lífskjarasamningana og hækka frítekjumörk.
Ætla sér stóra hluti í loftslagsmálum
„Við ætlum að hefja kraftmikla sókn gegn loftslagsbreytingum sem jafnast á við stærstu samfélagsverkefni 20. aldar: Raflýsingu og hitaveitu, lagningu síma og þjóðvega. Til þess þurfum við nýja nálgun og alvöru aðgerðir strax á öllum sviðum samfélagsins,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Meðal boðaðra aðgerða flokksins er lögfesting loftslagsmarkmiðs um minnst 60 prósent samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 og að hefja undirbúning að Keflavíkurlínu, grænni tengingu milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar, og flýta Borgarlínu.
Þjóðarátak í geðheilbrigðismálum og ný atvinnustefna
Samfylkingin ætlar sér að ráðast í þjóðarátak í geðheilbrigðismálum. Flokkurinn ætlar að auka fjármagn, bæta mönnun og aðgengi almennings að heilbrigðisþjónustu um allt land. Fyrsta skrefið í þeirri áætlun væri að gera sálfræðiþjónustu fyrir börn og ungmenni mun aðgengilegri og gjaldfrjálsa.
Þá ætlar Samfylkingin að að móta nýja og spennandi atvinnustefnu sem byggir meira á hugviti og grænum umskiptum og styðja betur við lítil fyrirtæki og einyrkja með upptöku sérstaks frítekjumarks fyrirtækja. Að sögn flokksins eru það nýmæli í íslenskum stjórnmálum.
Sækja gegn sérhagsmunum og jafna tækifæri
Samfylkingin boðar sókn gegn sérhagsmunum, hærri veiðigjöld og endurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu með það að markmiði að hámarka arð þjóðarinnar af sjávarauðlindinni.
Flokkurinn leggur áherslu á að þjóðin fái að kjósa um áframhald viðræðna um inngöngu í Evrópusambandið, ný stjórnarskrá verði sett á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs, að ný og mannúðlegri stefna í málefnum flóttafólks verði tekin upp og að samningur Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur.
Kosningastefnu Samfylkingarinnar má sjá í heild sinni á vef flokksins.