Þórir Rafn Þórisson kom Kórdrengjum yfir gegn Aftureldingu strax á 12. mínútu og staðan var 1-0 þegar flautað var til hálfleiks.
Kristófer Óskarsson jafnaði metin snemma í seinni hálfleik, en Axel Harðarson tryggði Kórdrengjum 2-1 sigur þegar 20 mínútur lifðu leiks.
Kórdrengir eru ú þriðja sæit Lengjudeildarinnar með 28 stig, fjórum stigum minna en ÍBV í öðru sætinu en hafa þó spilað einum leik minna. Afturelding er enn í níunda sæti með 19 stig.
Topplið Fram heimsótti botnlið Víkinga frá Ólafsvík í hinum leik kvöldsins.
Markalaust var í hálfleik, en Fred Saraiva kom gestunum yfir á fyrstu mínútu seinni hálfleiks.
Emmanuel Keke náði sér í tvö gul spjöld í liði heimamanna á tveggja mínútna kafla fljótlega eftir það og hann fékk því að fara snemma í sturtu.
Gestirnir nýttu sér liðsmuninn og Saraiva tvöfaldaði forystu Framara með sínu öðru marki á 69. mínútu.
Hlynur Atli Magnússon gerði svo út um leikinn þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Lokatölur 3-0, og Framarar eru enn á toppnum með 41 stig, níu stigum á undan næsta liði.
Víkingar sitja sem fastast á botninum með tvö stig.