Í dag er þess minnst í Nagasaki að 76 ár eru liðin frá því Bandaríkjamenn vörpuðu kjarnorkusprengju á borgina undir lok síðari heimsstyrjaldarinnar með skelfilegum afleiðingum.
Tomihisa Taue borgarstjóri hvatti ríkisstjórn Japans til að taka forystuna í að þrýsta á um kjarnorkuvopnalaust svæði í norðausturhluta Asíu í stað þess staðsetja sig undir kjarnorkuregnhlíf Bandaríkjanna.
Vísaði hann þar til þess að Bandaríkjamenn hafa heitið því, án samráðs við Japani, að beita kjarnorkuvopnum ef á þurfi að halda til að verja bandalagsþjóðir í Asíu.
Borgarstjórinn beindi máli sínu einnig til stjórna Bandaríkjanna og Rússlands, sem búa yfir mestu birgðum kjarnorkuvopna, og skoraði á þær að einbeita sér að kjarnorkuafvopnun.
Hann lýsti áhyggjum af því að á undanförnum árum hefðu þessi tvö kjarnorkuveldi snúið af leið afvopnunar og lagt áherslu á að að endurnýja og minnka kjarnorkusprengjur sínar, í stað þess að fækka þeim.