Samstarfsmenn Hill, þeir Frank Beard, trommari, og Billy Gibbons, sem spilar á gítar, tilkynntu andlát bassaleikarans á Facebooksíðu tríósins í kvöld. Þeir sögðu ekki hver dánarorsök Hill væri.
Í færslunni segja þeir Beard og Gibbons að þeir, ásamt aragrúa aðdáenda ZZ Top um heiminn allan, muni sakna Hill sárt.
AP fréttaveitan segir frá því að í síðustu viku hafi hljómsveitin tilkynnt að Hill þyrfti frá að hverfa um stund vegna mjaðmavandræða.
Þrímenningarnir stofnuðu ZZ Top í Houston árið 1969 og gáfu út sína fyrstu plötu árið 1970. Það var þó árið 1973 sem þeir gáfu út lagið La Grange, sem fjallar um „Kjúklingabýlið“. Það var víðfrægt vændishús í Texas. Aðrir slagarar hljómsveitarinnar eru Tush, Sharp dressed man, Legs, Gimme all your lovin og Rough boy, svo einhverjir séu nefndir.
Þeir voru svo vígðir í frægðarhöll rokksins árið 2004.
Hér má sjá ZZ Top spila sérstaka útgáfu af La Grange í þætti Howard Stern árið 2013.