Hansen, sem hafði aðeins skorað 11 mörk í fyrstu 57 deildarleikjum sínum með Víkingum hefur skorað 13 mörk í 14 deildarleikjum í sumar.
Hansen varð í gærkvöldi aðeins annar Víkingurinn sem nær að skora þrettán mörk á einu tímabili í efstu deild. Hér fyrir neðan má sjá mörkin hans í gærkvöldi sem komu bæði með skalla.
Hann jafnaði markamet Guðmundar Steinssonar frá 1991 en Guðmundur fékk þá gullskóinn og Víkingur varð Íslandsmeistari. Þetta met er orðið þrjátíu ára og Hansen fær nú átta leiki til að bæta það.
Guðmundur skoraði mörkin sín þrettán í aðeins fimmtán leikjum því hann missti úr þrjá leiki vegna meiðsla.
Guðmundur hafði þá slegið tíu ára met Lárusar Guðmundssonar frá Íslandsmeistarasumri Víkingsliðsins árið 1981.
Hansen hefur skorað í fimm síðustu heimaleikjum Víkingsliðsins og alls sjö af níu mörkum Víkinga í þessum fimm leikjum í Víkinni sem hafa skilað liðinu 11 stigum.
Flest mörk á einu tímabili fyrir Víking í efstu deild:
- 13 - Nikolaj Hansen, 2021
- 13 - Guðmundur Steinsson, 1991
- 12 - Lárus Guðmundsson, 1981
- 11 - Geoffrey Castillion, 2017
- 10 - Sigurlás Þorleifsson, 1979
- 10 - Heimir Karlsson, 1982
- 10 - Helgi Sigurðsson, 1992