Mikil reiði hefur ríkt meðal Suður-Afríkubúa undanfarnar vikur eftir handtöku Jacobs Zuma, fyrrverandi forseta landsins. Zuma var á dögunum dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi fyrir að hafa sýnt dómstóli vanvirðingu þegar hann neitaði að mæta fyrir dómara í tengslum við spillingarrannsókn sem beinist að honum þegar hann gegndi embætti forseta.
Stuðningsmenn Zuma voru fljótir að grípa í heykvíslarnar og hafa óeirðir skekið landið síðan 7. Júlí, daginn sem hann gaf sig fram. Þær hafa verið hvað verstar í heimahéraði Zuma, KwaZulu-Natal, en talið er að 258 hafi fallið í héraðinu. Skrifstofa forseta landsins tilkynnti í gær að 337 hefðu látist.
Ofbeldisaldan er sú blóðugasta frá því að aðskilnaðarstefnan leið undir lok. Nú virðist þó sem ofbeldisölduna sé að lægja en gríðarlegar skemmdir hafa orðið á heimilum og fyrirtækjum eftir óeirðirnar. Talið er að tjónið nemi allt að 170 milljörðum króna.
Þúsundir hafa verið handteknar í óeirðunum og yfirvöld hafa ekki tölu á þeim fjölda sem hefur særst. Cyril Ramaphosa, forseti Suður-Afríku, ávarpaði þjóðina í vikunni og sagði óeirðirnar meðvitaða og skipulagða árás á lýðræðið.
„Það er ljóst núna að atburðir síðustu vikna voru ekkert annað en meðvituð og vel skipulögð árás á lýðræði okkar. Stjórnarskrárskipan lands okkar er ógnað,“ sagði Ramaphosa í ávarpi sínu.