Erlent

Hátt í þrjá­tíu hafa farist í flóðum í Kína

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Flóðin hafa haft veruleg áhrif á samgöngur í héraðinu eins og sjá má á þessari mynd.
Flóðin hafa haft veruleg áhrif á samgöngur í héraðinu eins og sjá má á þessari mynd. AP/Chinatopix

Kínverski herinn hefur sprengt upp stíflu til að losa um uppsafnað vatn, sem ógnar lífi íbúa í einu fjölmennasta héraði landsins. Minnst 25 hafa látist í flóðunum.

Stíflan var sprengd seint á þriðjudagskvöld en hún var fyrir ofan borgina Luoyang. Úrhellisrigning hefur orsakað gríðarleg flóð, sérstaklega í Henan-héraði sem hefur orðið fyrir hvað mestum áhrifum og þá sérstaklega borgin Zhengzhou, höfuðborg héraðsins. Fréttastofa AP greinir frá

Tugir festust inni í neðanjarðarlestum, skólum og skrifstofum í nótt og minnst 25 hafa farist. Sjö er saknað vegna flóðanna.

Myndir á samfélagsmiðlum sýna hvernig heilu göturnar er á floti og eitt myndband virðist meðal annars sýna lestarvagn hálffullan af vatni. Talið er að rigningarmagnið í Zhengzhou síðustu þrjá daga jafnist á við það sem yfirleitt rignir á einu ári.

Verulegar truflanir hafa orðið á samgöngum á svæðinu þar sem flóðin hafa breytt vegum í árfarvegi og skolað burtu bílum og öðrum farartækjum og fyllt kjallara. Minnst tíu lestir, með um 10 þúsund farþegum, voru strand í gær og í nótt og þrjár þeirra högguðust ekki í meira en fjörutíu klukkutíma.

Þá hafa flóðin haft veruleg áhrif á heilbrigðiskerfið í héraðinu. Úrhellið varð til þess að rafmagnsleysi varð á spítölum og þurftu sjúkrahússstarfsmenn að beita handafli til að blása súrefni í lungu fólks sem er í öndunarvélum. Verið er að flytja um sex hundruð sjúklinga til annarra spítala sem ekki hafa orðið flóðunum að bráð.


Tengdar fréttir

Mesta rigning Kína í þúsund ár

Stór hluti Kína er nú á kafi í vatni eftir gífurlega rigningu undanfarna daga. Umfangsmikið björgunarstarf stendur yfir en veðurfræðingar segja að rigning muni halda áfram í nokkra daga.

Allt á floti í miðhluta Kína

Úrhellisrigning í miðhluta Kína hefur orsakað mikil flóð, þá sérstaklega í Henan-héraði þar sem tíu þúsund íbúar hafa verið fluttir í skjól. Myndir og myndbönd á samfélagsmiðlum sýna hvernig allt er á floti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×