Conor fótbrotnaði í fyrstu lotu bardagans sem fór fram í Las Vegas aðfaranótt sunnudags. Bardaginn var stöðvaður og Poirer dæmdur sigur á tæknilegu rothöggi.
Conor gekkst undir aðgerð í Los Angeles í gær. Hann sagði að hún hefði heppnast vel í myndbandi sem hann deildi með fylgjendum sínum á samfélagsmiðlum í morgun.
„Allt gekk samkvæmt áætlun og mér líður frábærlega. Ég verð á hækjum í sex vikur og svo hefst endurhæfingin,“ sagði Conor.
„Ég vil þakka aðdáendum mínum um allan heim fyrir öll skilaboðin. Vonandi nutuð þið bardagakvöldsins. Ég vil þakka öllum sem voru í T Mobile höllinni, stemmningin þar var rafmögnuð. Þetta var rosaleg fyrsta lota og það hefði verið gott að fara í aðra lotu og sjá hvað myndi gerast en svona er þetta.“
Conor skaut svo á Poirier og sagði að sigur hans ætti ekki að telja.
„Dustin, þú getur fagnað þessum ólöglega sigri en þú gerðir ekkert í búrinu. Það hefði sést í annarri lotu,“ sagði Írinn.
Þetta var þriðji bardagi Conors og Poiriers. Conor vann þann fyrsta 2014 en Poirier náði fram hefndum með því að sigra þann írska fyrr á þessu ári. Ekki er loku fyrir það skotið að þeir mætist í fjórða sinn.