Mögulegt er að Eriksen og sjúkraliðarnir fái að sjá landa sína í danska landsliðinu spila úrslitaleikinn en það skýrist í kvöld hvort að Danmörk eða England kemst þangað.
Kærustu Eriksens var einnig boðið á úrslitaleikinn en ekki liggur fyrir hvort að þau muni þekkjast boðið.
Sex manns sem komu að því að bjarga lífi Eriksen, eftir að hann hneig niður og fór í hjartastopp í leik Danmerkur gegn Finnlandi í upphafi Evrópumótsins, fengu einnig boð á úrslitaleikinn. Þar á meðal er Peder Ersgaard sem var einn þeirra fyrstu sem komu að Eriksen.
„Ég er rosalega stoltur af minni frammistöðu en líka af öllum hópnum í heild. Þetta var ekki eins manns verk,“ sagði Ersgaard við Fagbladet FOA. Hann var að vonum hæstánægður þegar hann opnaði tölvupóstinn frá UEFA:
„Þarna stóð að Aleksander Ceferin, forseti UEFA, vildi bjóða mér að koma sem VIP gestur á úrslitaleik EM í London 11. júlí. Ég var alveg í losti,“ sagði Ersgaard.
Eriksen var lagður inn á Ríkissjúkrahúsið í Kaupmannahöfn eftir að Ersgaard og félögum hafði tekist að bjarga lífi hans, fyrir tæpum mánuði síðan. Þar gekkst Eriksen undir rannsóknir og bjargráður var svo græddur í hann – tæki sem á að koma hjartanu í gang ef það stoppar aftur eins og í leiknum gegn Finnum.
Enn er óljóst hvaða þýðingu þetta hefur varðandi knattspyrnuferil Eriksens en hann er í dag leikmaður Ítalíumeistara Inter.